Vinnustofa um saltfisk

Deila:

Haldin var vinnustofa um saltfisk á vegum Matís þann 30. apríl 2019. Vinnustofuna sóttu saltfiskframleiðendur, matreiðslumeistarar og nemar við matreiðslunám Menntaskólans í Kópavogi (MK).

Markmið vinnustofunnar var að gera saltfiski hærra undir höfði, kynnast eiginleikum saltfisks, sögu og menningu, meta stöðuna eins og hún er, velta upp tækifærum og hindrunum og skiptast á skoðunum og reynslu af saltfisk.

Vinnustofan er hluti af verkefni sem AG-Fisk (Arbejdsgruppen for Fiskerisamarbejdet) á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur veitt styrk til. Matís mun á árinu 2019 og 2020 halda vinnustofur og fundi með matreiðslumönnum, ásamt kynningum, á Íslandi og öðrum Norðurlöndum í samvinnu við Íslandsstofu og saltfiskframleiðendur.

Megintilgangur verkefnisins er að kynna hefðir, nýjungar, vinnsluaðferðir, eiginleika og gæði sjávarfangs og auka þannig þekkingu á sjávarfangi, eins og saltfiski og með því stuðla að aukinni virðingu og auknu virði þess.

Sjá má meira um vinnustofuna á sjomat.org og instagram matisiceland

 

Deila: