Gera hlé á kolmunnaveiðum

Deila:

Það hefur hægst verulega á kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni að undanförnu og síðasta sólarhringinn var veiðin léleg. Nú er ráðgert að Síldarvinnsluskipin geri hlé á veiðunum og hefur Bjarni Ólafsson AK þegar hætt veiðum í bili. Margrét EA landaði á Seyðisfirði rúmlega 2.000 tonnum í gær og hefur hún einnig gert hlé á veiðunum. Beitir NK er á landleið með 3.000 tonn og mun væntanlega landa á Seyðisfirði og Börkur NK kemur til Neskaupstaðar í dag með tæplega 2.300 tonn. Hákon EA var á miðunum þegar síðast fréttist en var við það að fylla.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og spurði hvernig veiðarnar hefðu gengið að undanförnu. „Það hefur hægst verulega á veiðinni frá því hún var best. Í þessum túr var þetta þó köflótt hjá okkur. Þetta er í reyndinni allt hefðbundið. Þegar kemur fram í maí og kolmunninn gengur norður eftir dreifir hann sér og þá minnkar veiðin eðlilega. Í þessari veiðiferð byrjuðum við að veiða norður í Ræsi og austan í Færeyjabanka en enduðum sunnan við Múnkagrunn. Við höfum oft verið að veiða kolmunna fram undir sjómannadag en vegna loðnubrestsins var veitt meira en venjulega niður á Rockall þannig að skipin hafa veitt meira af kvótanum en að öllu jöfnu. Það er mjög eðlilegt að gert sé hlé á veiðunum núna vegna þess að veiðin fer minnkandi og vegna kvótastöðunnar,“ segir Hjörvar.
EÁ myndinni eru eldhressir Barkarmenn á kolmunnamiðunum. Ljósm. Hjörvar M. Sigurjónsson

 

Deila: