Skaginn 3X og Vísir undirrituðu milljónasamning á sjávarútvegssýningunni í Brussel

Deila:

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X mun setja upp vinnslubúnað fyrir sjávarútvegsfyrirtækið Vísi í
línuskipið Pál Jónsson, sem er í smíðum og verður væntanlega tilbúið til afhendingar í haust.
Félögin undirrituðu samning um verkefnið, sem hleypur á tugum milljóna íslenskra króna, við
hátíðlega athöfn á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðustu viku
Fyrirtækin hafa átt farsælt samstarf í gegnum tíðina og síðasta samstarfsverkefni var að setja upp
búnað í skipið Sighvat GK. Nýi búnaðurinn bætir alla aflameðhöndlun, svo sem blæðingu, kælingu,
flokkun og frágang afla í lest. Verkefnið er að hluta til unnið með Marel, sem mun meðal annars sjá
um flokkara og annan búnað.
„Skaginn 3X hefur unnið með Vísi að mörgum verkefnum í gegnum tíðina og komið að endurnýjun og
þróun nýrra lausna í fiskiskip félagsins undanfarin ár,” segir Freysteinn Nonni Mánason, sölustjóri hjá
Skaganum 3X.
„Í þessu verkefni er enn bætt við nýjungum og meðal annars verður ný hönnun á skrúfum í RoteXTM
lausn skipsins, sem bæta mun blæðingu enn frekar,” bætir hann við.

Pétur Hafsteinn Pálssson og Freysteinn Nonni Mánason.

Vísir hefur lagt mikla áherslu á ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði. Fyrirtækið býr nú þegar
yfir góðum skipaflota til línuveiða og nýja skipið mun enn frekar styðja við stefnu félagsins um að
veiða, vinna og framleiða afurðir úr fyrsta flokks hráefni fyrir breiðan hóp kröfuharðra viðskiptavina
vítt og breitt um heiminn.
„Lausnin um borð í Pál Jónsson hefur verið unnin í nánu og góðu samstarfi við sérfræðinga Skagans
3X og stuðlar að áframhaldandi framleiðslu á framúrskarandi matvælaafurðum,” segir Pétur
Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.
Skaginn 3X kynnti ValuePump™ í Brussel
Starfsmenn Skagans 3X hafa einbeitt sér að því að finna lausnir á því hvernig varðveita megi gæði
hráefnis betur en áður þekktist. Árangur þeirrar vinnu var kælikerfið SUB-CHILLING™, sem undirkælir
fisk án þess að ís komi þar við sögu.
„Þessi kælitækni skilaði undraverðum árangri og bætti líftíma fersks fisks um fimm til sjö daga,” segir
Ingólfur Árnason, forstjóri Skagans 3X.
Í framhaldi af undirkælingunni var ákveðið að ganga enn lengra og kallaði á þróun nýs tækis, sem var
kynnt formlega í fyrsta sinn á sjávarútvegssýningunni í Brussel við mjög góðar viðtökur.
„Við köllum þetta tæki ValuePump™ og það er algjörlega einstakt á markaðnum – ekkert annað tæki
sem völ er á í dag getur gert það sama og nýja tækið okkar eða virkar á svipaðan hátt,“ segir hann.
Ingólfur segir að tækið muni valda byltingu í fiskiðnaðinum, draga verulega úr vinnslutíma og auka
gæði afurða enn frekar.
„Á meðan fiski er dælt á milli staða innan vinnslunnar má ná fram margskonar ávinningi; stytta
blæðingartíma, flýta kæliferlinu, þvo fiskinn, sótthreinsa hann, sjóða eða frysta. Við erum sem sagt
með dælu, en það fer svo allt eftir vökvanum sem um hana rennur hverju sinni hver ávinningurinn
verður. Um dæluna getur runnið vökvi sem er allt frá því að vera 80 gráðu heitur niður í það sem
jafngildir 20 gráða frosti og allt þar á milli“.

Deila: