Hvalreki við Eiðisgranda

Deila:

Stærðarinnar hval hefur rekið á land við Eiðisgranda í Vesturbæ Reykjavíkur. Lögreglan er á staðnum og þá hefur Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti Seltjarnarness hefur verið tilkynnt um hræið samkvæmt frétt á ruv.is.

Soffía Hjördís Ólafsdóttir, sem var á gangi við fjöruna, gekk fram á hræið nú fyrir stundu og tók þær myndir sem fylgja fréttinni. Hún segir stæka lykt liggja yfir grandanum.

Hræið hefur ekki verið rannsakað og því ekki vitað hverrar tegundar það er en af myndum að dæma virðist það vera hrefna. Eins er ekki hægt að segja til um hvenær það rak á land en ástandið á hræinu virðist gott og því má ætla að hvalurinn sé tiltölulega nýstrandaður. Matvælastofnun hefur verið tilkynnt um hræið. Aðkoma þeirra er þó ekki mikil þar sem dýrið var dautt þegar það fannst.

Stærðarinnar belg má sjá standa út úr hvalnum. Þóra Jóhanna Jónasdóttir, dýralæknir gæludýra og dýravelferða hjá Matvælastofnun, segir að hræið blási út vegna gerjunar á þörmum og magainnihaldi en bakteríur framleiða gas þegar dýrið drepst. Eðlileg hreyfing á þörmum hættir og dýrið getur þá blásið upp. Þóra segir að varasamt geti verið fyrir fólk að vera í námunda við hræið þegar það er útblásið því dýrið geti hreinlega sprungið. Í hræinu sé „heljarinnar bakteríusúpa“ og þar á meðal bakteríur sem auðveldlega geta borist til manna og valdið sjúkdómum. Hafi fólk ekki þekkingu til að verja sig sé best að halda fjarlægð við hvalreka.

 

Deila: