Miklar sveiflur í aflaverðmæti milli landshluta

Deila:

Miklar sveiflur voru í febrúar á verðmæti landaðs afla eftir landshlutum. Á vestanverðu landinu jókst verðmætið um 50%, en féll víðast hvar annars staðar eða var undir landsmeðaltalinu, sem var 25% hækkun.

Að vanda var verðmæti landaðs afla á höfuðborgarsvæðinu langmest, eða langleiðina í þrjá milljarða króna, sem var 50% vöxtur. Svipuð aukning varð í verðmæti landaðs afla á Vesturlandi eða 50,3%, en það var þó aðeins um einn milljarður króna. Á Vestfjörðum jókst verðmætið svipað eða um 48%, en heildarverðmæti þar var þó ekki nema 743 milljónir króna.

Á Suðurnesjum var landað afla að verðmæti 2,2 milljarðar króna. Aukningin þar var um 23%, sem er rétt undir meðaltalinu. Verðmæti landaðs afla á Austurlandi varð 1,5 milljarður, sem er aðeins vöxtur um 7,7%. Norðurland eystra fylgir fast á eftir Austfjörðunum með tæpan 1,5 milljarð króna. Þar er aukning verðmæta 21%.

Á Suðurlandi var verðmæti landaðs afla 646 milljónir króna. Það er samdráttur um 18% og Norðurland vestra rekur lestina með 255 milljónir króna í aflaverðmæti og þar er samdrátturinn 23%.

Skýringar á þessum sveiflum geta verið margar. Engin loðnuveiði er hluti þeirra, en annars að landanir á botnfiski hafi dreifst öðru vísi en í febrúar í fyrra, þar sem nánast öll verðmætaaukning í ár er í þorski og ýsu.

Deila: