Tilviljun að hafa lifað af

Deila:

Í nýjasta tölublaði tímaritsins Ægis er viðtal við Eyþór Björnsson, fiskistofustjóra, sem lenti í þremur slysum á sjómannsferli sínum og var sá eini sem lifði af þegar fiskibáturinn Eldhamar GK strandaði við Hópsnes við Grindavík árið í nóvember árið 1991. Eyþór fer í viðtalinu yfir atburðarrásina en báturinn var á landleið úr sínum þriðja róðri eftir að hann hafði verið lengdur í Póllandi. Eyþór var stýrimaður á Eldhamri GK en hann var áður háseti á Hrafni Sveinbjarnarsyni III GK sem einnig strandaði við Hópsnes en þá var allri áhöfninni bjargað. Hér eftirfarandi er gripið niður í frásögn Eyþórs af Eldhamarsslysinu en sá hörmulegi atburður ýtti verulega undir umræðu þörf á úrbótum í þyrlumálum og öryggi sjómanna:

Eyþór Björnsson ætlaði sér að gera sjómennskuna að ævistarfi sínu en eftir að hafa orðið fyrir víraslysi um borð í frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni og slasast alvarlega fyrir 19 árum varð ekki aftur snúið á sjóinn. Eyþór hafði áður lent í strandi Hrafns Sveinbjarnarsonar III GK við Hópsnes þar sem öll áhöfnin bjargaðist og var sá eini sem komst lífs af úr strandi Eldhamars GK við Hópsnes haustið 1991.

Þyrlan var eina vonin

Eyþór fór í Stýrimannaskólann árið 1990 og segir að ætlunin hafi verið að taka bæði fyrsta og annað stig stýrimannanámsins. Þegar hann var að ljúka fyrsta stiginu bauðst honum að taka við stýrimannsstöðunni á Eldhamri GK-13 í Grindavík. Eldhamar var smíðaður í Svíþjóð árið 1988 en var lengdur og yfirbyggður í Póllandi árið 1991. Á heimsiglingunni úr línuróðri stuttu eftir breytingarnar, föstudagskvöldið 22. nóvember 1991, strandaði Eldhamar við Hópsnes. Þetta varð eitt stærsta sjóslys síðari áratuga hér á landi.

„Ég get í rauninni ekki svarað því nákvæmlega hvað það var sem þarna gerðist en ég og skipstjórinn vorum báðir í brúnni þegar óhappið varð. Veður var ágætt, suðvestanátt en við þær aðstæður brýtur alltaf á Hópsnesinu. Þegar við áttuðum okkur á að við vorum komnir of nálægt Hópsnesinu á heimsiglingunni var báturinn kominn inn í brotsjói og ekki hægt að koma honum út úr öldurótinu. Við misstum hann þversum og í látunum fór skrúfan í grjót þannig að við misstum hana. Þar með vorum við orðnir bjargarlausir og áttum enga möguleika á að komast út aftur. Við tilkynntum um yfirvofandi strand klukkan rúmlega 20 en það leið síðan talsverður tími þar sem báturinn var að berjast um í fjörugrjótinu. Hann snerist við þannig að stefnið vísaði út, lagðist síðan á bakborðshliðina meðan hann færðist smám saman upp í grjótið. Við í áhöfninni fórum aftur á skut og reyndum að skjóta línu í land sem ekki tókst og ekki tókst heldur að skjóta til okkar línu frá hjálparsveitarmönnum í landi. Því var ekki önnur von fyrir okkur eftir en björgun með þyrlu,“ segir Eyþór. Áhöfnin var í flotgöllum aftur á bátnum sem barðist um í fjörunni en við brotöldurnar færðist báturinn nánast á kaf ofan í gjótu og þar með gengu brotin yfir brúna og skipverjana tók út.

Eldhamar GK hét áður Hulda ÍS en báturinn var smíðaður árið 1988 og kom til Grindavíkur árið 1990. Sumarið 1991 var hann lengdur í Póllandi og var því einum af fyrstu róðrunum þegar slysið við Hópsnes varð. Myndi: tímaritið Ægir.

Eins og í þeytivindu

„Brúin hafði skýlt okkur en þegar hún fari farin á kaf fórum við með brotunum aftur af skutnum og í sjóinn. Það er varla hægt að lýsa því hvernig er að vera í svona brotsjó en ég hef stundum sagt að þetta hljóti að vera líkast því að vera í þeytivindu. Krafturinn í sjónum sópar manni til og frá, snýr manni og veltir um í sjórótinu. Strax í kjölfar fyrsta brotsins sem tók mig aftur af skipinu fór ég með útsoginu djúpt niður og mér fannst ég vera undir skipinu. Þegar ég var að krafla mig upp aftur kom næsta brot og dró mig aftur niður en eftir það náði ég að komast upp og draga andann áður en það þriðja reið yfir. Eftir þetta fannst mér brotin aðeins léttast, sem var vegna þess að ég var smám saman að mjakast upp í fjöruna. Sjálfsagt var það ómeðvitað en þegar brotin komu þá dró ég mig í hnút og hélt um höfuðið því ég hugsaði með mér að ég yrði að reyna að forðast að lenda utan í hvössu grjótinu. Á endanum náðu svo björgunarsveitarmenn til mín í fjörunni og komu mér á þurrt en því miður fórust þarna allir fimm félagar mínir í áhöfninni. Líkast til hefur það bjargað mér að flotgallinn hélt allan tímann og ég kom algjörlega ómeiddur úr þessum hrakningum. Gallarnir hjá félögum mínum voru rifnir eftir barninginn en þegar slíkt gerist þá missa gallarnir mikið flot. Í þessum aðstæðum verður ótrúlega stutt milli lífs og dauða og í rauninni er algjör tilviljun að ég skyldi komast þarna lífs af,” lýsir Eyþór en þegar hann komst í hendur björgunarsveitarmanna í landi var liðin rösk klukkustund frá því báturinn hafði sent út neyðarkallið.

Eina hugsunin að lifa af

Eyþór segist ekki hafa fundið fyrir kulda fyrr en hann kom í björgunarsveitarbílinn. „Adrenalínið var í botni en fyrst og fremst hafði maður hugsað um að lifa af. Ég hafði ekki fundið fyrir neinum kulda fyrr en þarna. Stundin í björgunarsveitarbílnum líður mér aldrei úr minni  því þarna sat ég einn í myrkrinu, heyrði í talstöðvarsamskiptunum og gerði mér grein fyrir að alvarlegir atburðir væru að gerast. Ég hafði verið viss um að um að félag mínir hlytu að koma heilir upp úr fjörunni líkt og ég en þarna áttaði ég mig að svo var ekki um alla. Smám saman kom svo í ljós að þarna höfðu allir fimm félagar mínir og góðir drengir farist,” segir Eyþór og skiljanlega tekur á að rifja þennan sorglega atburð upp. Farið var með Eyþór á sjúkrahúsið í Keflavík og þaðan fór hann með sjúkrabíl aftur til Grindavíkur eftir að hafa farið í gegnum læknisskoðun og verið klæddur í þurr föt.

Eins og áður segir vonuðust skipverjarnir á Eldhamri eftir að þyrla kæmi þeim til bjargar í tæka tíð en þegar hún loks kom frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli var það um seinan. Þyrla Landhelgisgæslunnar var biluð á Ísafirði og var því ekki fáanleg á slysstað.

„Ef þyrla hefði komið til okkar í tæka tíð þá hefði þetta ekki þurft að fara svona. Þarna fór flest úrskeiðið sem gat farið úrskeiðis, því miður,“ segir Eyþór en í kjölfar slyssins jókst umræða um þörfina á björgunarþyrlukaupum til að auka öryggi sjómanna. Áfallameðferð var ekki á þessum tíma skipulögð líkt og er í dag en Eyþór segir að þau hjón hafi unnið saman úr áfallinu. „Svona lagað tekur langan tíma en ég man lítið eftir fyrstu vikunum eftir slysið því ég var algjörlega dofinn. En svo líður tíminn og lífið heldur áfram.“

Langaði samt aftur á sjóinn

Í kjölfar Eldhamarsslyssins voru haldin sjópróf og síðan málaferli sem Eyþór þurfti að ganga í gegnum vegna slyssins og segir hann að þau síðarnefndu hafi tekið mikið á. „Ég hygg að það hafi verið nauðsynlegt að fara í gegnum allt slysið í heild sinni með þessum hætti þar sem ég var einn til frásagnar um atburðarrásina. Á vissan hátt gæti verið að það hafi verið ákveðin áfallahjálp fyrir mig að fara yfir atburðinn lið fyrir lið eins og þurfti að gera en þrátt fyrir allt er það svo að atburðurinn sækir aldrei á mig sem slíkur. Ég hef til dæmis aldrei vaknað upp úr svefni með þessar minningar eða slíkt. En það er örugglega mjög einstaklingsbundið hvernig menn takast á við áföll og vinna úr þeim. Mér hefur gengið það ágætlega.“

Eyþór segist sjálfur hafa farið að hugleiða fljótt eftir Eldhamarsslysið að snúa aftur á sjóinn en segist í fyrstu hafa hikað við að nefna þann möguleika við eiginkonu sína. Þegar hann svo gerði það þótti henni það sjálfsagt ef hann treysti sér til.

„Ég þekkti ekkert annað en sjómennskuna og langaði ekki að gera neitt annað. Langaði að fara á sjóinn aftur. Í janúar 1992 fór ég svo aftur á sjó á 100 tonna togbát sem hét Þröstur og ég man að í fyrstu siglingunni fórum við út úr innsiglingunni í Grindavík til að stilla kompásinn. Það var mjög skrítin tilfinning að sjá flakið af Eldhamri í Hópsnesfjörunni og  ég man líka að áður en við byrjuðum að róa fór áhöfnin á björgunaræfingu þar sem einn liðurinn var að stökkva í sjóinn. Þá áttaði ég mig á að ég þorði ekki í sjóinn og gat ekki hugsað mér að fara aftur á kaf. Ég klifraði niður stigann utan á bátunum og fór rólega í sjóinn, þannig þurfti ég að yfirvinna ákveðna hluti úr lífsreynslunni frá slysinu. Og tókst það smám saman.“

Eyþór var á Hrafni Sveinbjarnarsyni III þegar hann fórst við Hópsnes. Öll áhöfnin bjargaðist.

Skipið brotnaði í fjörunni og kastaði brimið því á land í tvennu lagi með nokkur hundruð metra millibili eins þessar mynndir Hjartar Gíslasonar sýna.

Fremri hlutinn af Hrafni Sveinbjarnarsyni

Afturendinn af Hrafni liggur aðeins utar á Hópsnesi.

Á efstu myndinni er minniskerki um Elhamarsslysið utar á Hópsnesinu. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila: