Mjaldrarnir komir til Eyja
Rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi lauk löngu og ströngu ferðalagi mjaldrasystranna Litlu Hvítrar og Litlu Grárrar þegar þær komu til Vestmannaeyja með Herjólfi, ferðalagið tók alls um 19 klukkustundir samkvæmt eyjafrettir.is.
Systurnar voru farnar að sýna þreytumerki við komuna til Vestmannaeyja að sögn Sigurjóns Inga Sigurðssonar, verkefnastjóra hjá sérverkefnadeild TVG-Zimzen við mbl.is Ferðalagið hófst klukkan fjögur í fyrrinótt að íslenskum tíma þegar vöruflutningaþota Cargolux, Boeing 747-400 ERF, lagði af stað frá Sjanghæ í Kína með mjaldrana um borð. Flugið tók tæpa ellefu klukkustundir og lenti vélin í Keflavík rétt fyrir klukkan tvö í dag. Þar tók við tollafgreiðsla auk þess sem fulltrúar MAST skoðuðu mjaldrana og gáfu út formlegt leyfi fyrir flutningnum. Einnig var skipt um vatn að hluta í búrum systranna áður en lagt var af stað eftir Suðurstrandaveginum um klukkan sex síðdegis en rétt fyrir klukkan tíu í kvöld keyrðu bílarnir með systurnar inní Herjólf.
Mjaldrasysturnar verða nú settar í einangrun í sérsmíðaðri laug þar sem þær munu dvelja allavega í 40 daga. Þegar aðlögun þeirra er lokið verða þær fluttar á griðastað sinn í Klettsvík.