Brottkast undir einu prósenti!

Deila:

Ný rannsókn sýnir að brottkast af þorski við netaveiðar við Noreg er undir einu prósenti. Um er að ræða meistaraprófsritgerð eftir Hilde Sofie Fantoft Berg við líffræðideild Háskólans í Bergen.

Brottkast á fiski er hnattrænt vandamál og er talið að 10% af heimsaflanum sé kastað á glæ eftir að hann hefur verið veiddur. Víðast hvar er brottkast bannað eins og í Noregi og á Íslandi. Til að koma í veg fyrir sóun verðmætrar auðlindar skal allur afli koma að landi. Bannið við brottkasti er einn af hornsteinum norskra fiskveiðistjórnunar. Þrátt fyrir það eru merki frá útveginum um að brottkast eigi sér stað, en erfitt er að festa hendur á því í hve miklum mæli.

„Mat mitt eru að brottkast  af þorski á síðustu sjö árum sé að meðaltali undir 0,73% á bátum undir 15 metrum sem veiða í net. Brottkast er algengara á síðari helmingi ársins en á þeim fyrri,“ segir Fantoft Berg, en að prófi loknu vinnur hún hjá norsku hafrannsóknastofnuninni í sumar. Rannsóknin bendir til að brottkast á þorski á smærri netabátum sé lágt og hlutur brottkasts í þessum veiðum ætti ekki að hafa teljandi áhrif á þorskstofninn,“ segir hún ennfremur.

Rannsóknin er sú fyrsta sem byggist á raunverulegum veiðitölum til að meta brottkastið. Niðurstaðan byggist á upplýsingum um brottkast frá Hafrannsóknastofnuninni af tilteknum bátaflota. Þær eru keyrðar saman við löndunarskýrslur frá fiskistofu Noregs á árunum 2012 til 2018. Rannsóknin nær til bátaútgerðar við strönd Noregs frá 64° gráðu norður á þá 70°.

Með því að bera saman lengdarmælingar sýnir rannsóknin merki um brottkast af þorski yfir lágmarksstærð.  Það getur bent til að verið sé að henda lakari fiski og koma aðeins með besta fiskinn að landi.

 

Deila: