20 grindhvalir drápust – 30 bjargað
„Þetta er ofboðslega góð spurning og eitthvað sem ég spyr mig daglega. Auðvitað klæjar mann í fingurna að fara á staðinn og rannsaka þetta en það er hægara sagt en gert, “ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávarlíffræðingur um af hverju grindhvalirnir, sem strönduðu við Útskálakirkju í Garði í gærkvöld, voru þar yfirhöfuð. Um tuttugu hvalir drápust en björgunarsveitum af Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu tókst að bjarga um þrjátíu. „Þetta er verulega mikið afrek,“ segir Edda í samtali á ruv.is.
Lögreglan á Suðurnesjum óskaði á tíunda tímanum í gærkvöld eftir aðstoð björgunarsveita vegna rúmlega fimmtíu grindhvala sem höfðu strandað í fjörunni við Útskálakirkju í Garði. Fjöldi fólks var þá komin niður í fjöruna til að reyna að bjarga hvölunum og var fyrsta verkefni björgunarsveitarmanna að biðja það um að yfirgefa svæðið.
Edda segir ekki hlaupið að því að færa til svona hvali – fullorðin dýr geti verið allt að tonn að þyngd. Þá geti þeir borið með sér vírus sem smitast getur yfir í menn og það geti gert illt verra ef einhverjir ólærðir séu að færa til dýrin. „Dýrin eru undir miklu álagi og sum hver í losti.“ Björgunarsveitarmenn notuðust því við dælur til að halda hvölunum rökum og fylgdu þeim síðan út þegar flæddi að. Hún segir marga hafa verið svekkta að hafa ekki getað aðstoðað en þarna hafi verið að fylgja eftir nýju verklagi við björgun hvala.
Edda segir að björgunarsveitarmenn hafi unnið verulegt afrek með því að bjarga því sem bjargað varð. Það hafi unnið störf sín faglega og verið duglegt að leita sér ráðgjafar. Og það skiptir máli hvaða dýrum er bjargað fyrst. Hjá grindhvölum eru það kvendýrin sem þarf að huga að fyrst. „Ef þú tekur kálfana fyrst þá koma þeir aftur því þeir fara ekki án mæðra. Kvendýrin stýra hverri fjölskyldueiningu.“
En hver skyldi ástæðan vera fyrir því að grindhvalirnir, sem eru djúpsjávardýr, leiti í svona grunnsævi? Edda telur að líklegast hafi hvalirnir verið í fæðuleit og verið að elta makríl-torfu. „Það sem við höfum séð líka, þegar hvali rekur á landi, að þetta er að gerast á stórstreymi. Þeir eru inná svæði sem er þeim ókunnugt og þarna er ekki náttúrulegt fyrir þau að vera.“ Hún segir að sjávarföllin séu þarna sterk og mikill munur á fjöru og flóði. „Þegar flæðir frá þá gerist það mjög hratt. Þetta eru ekki strandhvalir, þeir þekkja ekki til þessarar hegðunar vatnsins og eru því líklegir til að lenda á þurru auk þess að eiga erfitt með að átta sig.“
Hún segir að nú verði menn að vera vakandi fyrir því hvort einhverjir þessara hvala komi aftur að landi. Ef hvalirnir séu særðir eða slasaðir þá falli varnir hans niður. „Vonandi ná þau samt að halda hópinn og halda út á djúpsæ.“
Myndir Hjörtur Gíslason.