1.100 tonna túr hjá Vigra RE

Deila:

,,Það hafa verið mjög góð aflabrögð mjög víða. Vissulega er minna af þorski nú á Vestfjarðamiðum en verið hefur en þorskurinn kemur aftur þótt hann hafi tímabundið farið annað í ætisleit. Það vita það allir að það sést varla loðna á Vestfjarðamiðum þessa dagana en þar er nóg af æti fyrir fiskinn. Ufsinn virðist a.m.k. kunna að meta það æti og það er búin að vera mjög góð ufsaveiði á Halanum og víðar í allt sumar.“

Þetta sagði Eyþór Atli Scott, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE, er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda, en Eyþór Atli var með skipið í veiðiferðinni sem lauk um síðustu helgi. Aflinn var um 1,100 tonn upp úr sjó og var afla millilandað einu sinni í Reykjavík á þeim mánuði sem veiðiferðin stóð.

,,Við fórum út að kvöldi 12. júlí og hófum veiðar á Látragrunni. Þar var mjög góð ýsuveiði og við fengum svo einnig ýsu á Deildar- og Barðagrunni. Við fórum svo á Halann en þar var mjög góð ufsaveiði og við fengum einnig dálítið af þorski með ufsanum. Það er mikið af síld og öðru æti á Halanum og við urðum m.a.s. varir við loðnu. Þorskurinn er að eltast við hana og miðað við það hvar þorskurinn heldur sig nú virðist loðnan aðallega halda sig fyrir norðan land.“

Frá Halanum lá leiðin suður í Víkurál en þar var mjög góð karfaveiði að sögn skipstjórans.

,,Það er búin að vera mjög góð gullkarfaveiði í Víkurálnum. Við fórum svo í rúman sólarhring út á Hampiðjutorg og reyndum við grálúðu en það var lítið að hafa þannig að við fórum aftur í Víkurálinn,“ segir Eyþór Atli Scott en hann telur að það sé almennt góð veiði allt í kringum landið. Mjög góð þorskveiði sé úti fyrir Norðurlandi, þorskur sé einnig á Austfjarðamiðum og mikið sé af gullkarfa og ufsa. Ástand helstu bolfiskstofna sé því gott.

 

Deila: