Dregur úr löndun VS-afla
Landanir á svokölluðum VS-afla hafa farið minnkandi á síðustu árum. Á tímabilinu 2012-2013 til 2017-2018 var landaður VS-afli rúmlega 12.000 tonn. Mestur var þessi afli fyrsta fiskveiðiárið eða 2.711 tonn, en fór minnkandi ár frá ári og varð minnstur á síðasta fiskveiðiári, 1.322 tonn. Þessi afli er reyndar orðinn 1.546 tonn í þessu fiskveiði ári.
Þetta kemur fram í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar þingmanns miðflokksins. Hann spurði um umfang þessara landana og hvort einhver skip hefðu á sama tímabili bæði landað VS-afla og fært frá sér heimildir.
„Á fiskveiðiárunum 2012–2013 til 2017–2018 lönduðu 514 skip VS-afla og færðu jafnframt frá sér aflaheimildir í sömu tegund. Hluti þessara skipa landaði VS-afla og flutti frá sér aflaheimildir öll árin, en önnur skip einungis eitt fiskveiðiár,“ segir í svarinu.
En hvað er VS-afli? Reglugerð um hann er svohljóðandi:
„Heimilt er skipstjóra að ákveða að hluti aflans reiknist ekki til aflamarks skipsins. Þessi heimild takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla, sem viðkomandi skip veiðir á fiskveiðiárinu og er bundin eftirfarandi skilyrðum:
- Aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn og skráður sérstaklega.
- Aflinn sé seldur á uppboði á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla og andvirði hans renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins sbr. lög nr. 37/1992, með síðari breytingum.
- Heimildin skiptist í fjögur þriggja mánaða tímabil á fiskveiðiárinu. Ekki er heimilt að flytja ónýttar heimildir milli tímabilanna. Þó má miða afla, sem fæst sem meðafli við grásleppuveiðar, við heimild fiskveiðiársins í heild, enda sé sá afli gerður upp í lok þess.”