Viðskiptaleiðtogar heimsækja höfuðstöðvar Marel

Deila:

Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð funduðu í gær með forsætisráðherrum Norðurlanda þar sem rætt var um um sameiginlegar áskoranir ríkjanna um sjálfbærni, aðgerðir í loftslagsmálum og mikilvægi fjölbreytileika í atvinnulífinu með jafnfrétti að leiðarljósi. Sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandaráðs stóð samtímis yfir hér á landi.

Á fundinum kynntu forstjórarnir áherslu samtakanna á mikilvægi þessi þess að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með bættum viðskiptaháttum og auknu samstarfi einkageirans og hins opinbera.

Forstjórar þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum hafa skuldbundið sig til að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í starfsemi sinni og ákvörðunartöku. Áhersla á sjálfbærni verður aðlöguð að stefnu fyrirtækjanna og þvert á virðiskeðjur þeirra.

Stefnt er að því að uppfylla Heimsmarkmiðin árið 2030. Ljóst er að skammur tími er til stefnu en helstu áherslur forstjóranna eru tvenns konar; Annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækjanna og hins vegar að vinna sameiginlega að því að auka upplýsingagjöf um fjölbreytni í atvinnulífinu í þeim tilgangi að ná fram sem bestum starfsháttum fyrirtækjanna.

Að loknum formlegum fundarhöldum héldu forstjórarnir í höfuðstöðvar Marel þar sem þeir fengu leiðsögn um framleiðslu- og nýsköpunarstarfssemi Marel á Íslandi. Árni Oddur veitti hópnum innsýn í vöruþróunarstarfssemi Marel, en árlega fjárfestir fyrirtækið um 6% af tekjum í nýsköpun.

„Marel vinnur markvisst að því að umbylta matvælaframleiðslu á heimvísu með það markmið að tryggja framleiðslu hágæða-matvæla á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Marel hefur sett í brennidepil þrjú af tólf þróunarmarkmiðum SÞ sem það telur sig geta haft mest áhrif á. Þau eru markmið 2 um að útrýma hungri, markmið 9 um að byggja upp sterka innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu fyrir alla og hlúa að nýsköpun, og markmið 12 sem snýr að því að tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslumynstur.

Samstarf hefur alla tíð verið grundvöllur vaxtar og framþróunar hjá Marel – hvort sem það á við viðskiptavini, fjárfesta, starfsfólk eða aðra aðila. Nordic CEOs er mikilvægur samstarfsvettvangur til þess að skiptast á hugmyndum og ræða hvernig fyrirtæki á Norðurlöndum geta stuðlað að sjálfbærum vexti með nýsköpun og vöruþróun,“ segir meðal annars í frétt frá Marel.

Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð voru stofnuð árið 2018. Tilgangur þeirra er að hvetja til sameiginlegrar forystu og aðgerða í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum. Forstjórar þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum eru í forsvari fyrir fyrirtæki sem velta yfir 110 milljörðum evra og eru með yfir 290 þúsund starfsmenn með starfsemi í 119 löndum. Þau fyrirtæki sem mynda samtökin eru Íslandsbanki, Marel, Equinor, GSMA, Hydro, Nokia, Posten Norge, SAS, Storebrand, Swedbank, Telenor, Telia, Vestas og Yara.

 

Deila: