Með alversta móti
„Þetta gengur bara illa. Veiðin er léleg. Þetta er held að þetta sé með alversta móti og menn muna ekki annað eins, eins og gjarnan er sagt. Það eru sjálfsagt á þessu ýmsar skýringar. Hafró hefur sínar og ég mínar en ég veit í raun ekki hvað veldur. Það er alveg ljóst að nýliðun er mjög léleg en hvers vegna vitum við ekki. Kannski erum við búnir að slátra þessu sjálfir. Það getur alveg vel verið. Það litla sem við fáum er bara stór humar og í rauninni er mjög slæmt að sjá ekki neina breidd í þessu. Sjá bara þennan stóra humar og allt of lítið af honum.“
Þetta sagði skipstjórinn Sigurður Ólafsson á humarbátnum Sigurði Ólafssyni SF frá Höfn í Hornafirði, þegar Kvótinn náði tali af honum í Grindavíkurhöfn. Hann var þá að landa ásamt þremur Hornafjarðarbátum, Þóri, Skinney og Þinganesi, allir á humri.
Hækkandi hitastig ekki neikvætt
Hækkandi hitastigi er stundum kennt um það sem miður fer, en Sigurður bendir á að það eigi alls ekki við um humarinn. „Hækkandi hitastig ætti alls ekki að hafa neikvæð áhrif því þessi humartegund lifir góðu lífi við hærra hitastig hér sunnar í Evrópu. Við erum á norðurmörkum útbreiðslusvæðis humarsins. Hann er mikið veidd í kringum Bretlandseyjar og úti fyrir Frakklandi í hlýrri sjó. Það ætti því því ekki að hafa nema jákvæð áhrif ef sjávarhitinn hækkaði. Hafró talar um einhverjar breytingar á seltu og eitthvað meira. Kannski hefur það eitthvað að segja.“
Humarveiðarnar byrjuðu fyrir austan eins og venjulega undanfarin ár og síðan færa bátarnir sig yfir á vestursvæðið svokallaða eftir sjómannadag. „Við byrjuðum í byrjun apríl fyrir austan og það var bara mjög lélegt frá upphafi. Má eiginlega segja að það hafi ekki verið nein byrjun. Það er kannski aðeins skárra hérna fyrir vestan. Það var þó lélegt miðað við síðustu ár en var enn lélegra fyrir austan“.
Bátarnir hafa verið í kringum Eldey að undanförnu en hafa verið að keyra á milli og prufa en flestir haldið sig sig sunnan og norðan við eyna undanfarna tíu daga.
Sigurður segir að hann hafi hreinlega ekki tekið aflann saman það sem af er vertíð. „Það er bara drullulélegt. Ég veit að aflinn er lítill og það er nóg af heimildum eftir. Þetta er mjög lélegt miðað við þann tíma sem ég er búinn að vera að berja á því.“
Þar éta túristarnir hann
Allur humarinn frá þeim á Sigurði fer á tvo veitingastaði á Hornafirði, Humarhöfnina og Pakkhúsið. „Þar éta túristarnir hann.“
Bátum á humri hefur fækkað jafnt og þétt og eru þeir nú 9 til 10. „Mikil fækkun á nokkrum árum en samt snarminnkar aflinn á bát. Kvótinn hefur ekki náðst undanfarin ár og næst ekki í ár. Ég held að það sé útilokað. Mér skilst að vertíðin í fyrra hafi verið sú lélegasta frá upphafi og ég held að þessi verði enn lélegri,“ segir Sigurður Ólafsson.
Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.