Slæmt tíðarfar hamlar strandveiðum

Deila:

Þorskafli strandveiðibáta er nú kominn í 9.700 tonn, sem er 500 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Leyfilegur þorskafli í sumar er 11.100 tonn og er aflinn nú 77,5%. Þar sem síðasta veiðivika tímabilsins er nú að hefjast er ljóst að heildaraflamarkinu verður ekki náð. Ágústmánuður hefur verið mjög erfiður fyrir sjósókn smærri báta og aflinn nú mun minni en í sama mánuði og í fyrra.

Afli strandveiðibáta var í lok síðustu viku kominn í 1.474 tonn, sem er ríflega 400 tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Samdráttur hefur orðið á öllum svæðum nema svæði C, fyrir Austurlandi. Þar er aflinn það sem af er ágúst 480 tonn en var á sama tíma í fyrra 417 tonn. Nokkru fleiri bátar hafa landað afla nú en í fyrra. Afli á bát er að meðaltali 3,9 tonn kíló og afli í róðri að meðaltali 745 kíló. Í báðum tilfellum er um aukningu að ræða.

Mun minna hefur verið landað á svæði A, frá Snæfellsnesti vestur á Firði, nú í ágúst en í fyrra. Aflinn nú er tæp 500 tonn, sem er 350 tonnum minna. Nú róa um 30 fleiri bátar en í fyrra og er afli á bát að meðaltali 2,2 tonn en var í fyrra 3,7 tonn. Að sama skapi hefur afli í róðri að meðaltali fallið og er nú 525 kíló.

Á svæði B, fyrir Norðurlandi, hefur bátum fjölgað um 25. Heildaraflinn nú er 2,3 tonn en var um 4,4 tonn í fyrra. Meðalafli í róðri er 610 kíló sem er 70 kílóum minna en í fyrra.

Afli á svæði D, fyrir Suðurlandi, er 196 tonn, sem er um 60 tonnum minna en í fyrra. Bátunum hefur fjölgað um 16 og er afli á bát að meðaltali ríflega 1,4 tonn, en hann var 2,1 tonn á sama tíma í fyrra. Meðalafli í róðri er 611 kíló, sem er 60 kílóum minna.

Aflahæstu bátar á hverju svæði frá upphafi veiðanna í sumar eru Kolga BA á svæði A með 44,3 tonn í 44 róðrum. Á svæði B er Svala EA aflahæst með 32,8 tonn í 40 róðrum. Birta SU er aflahæst á svæði C með 49,3 tonn í 43 róðrum og á svæði D er Ásbjörn SF efstur með 44,2 tonn í 42 róðrum.

Deila: