Gullver og Smáey lönduðu á Seyðisfirði
Ísfisktogararnir Gullver NS og Smáey VE lönduðu báðir fullfermi á Seyðisfirði í gær. Afli Gullvers var 105 tonn og var þorskur og ýsa uppistaðan. Afli Smáeyjar var um 70 tonn og samanstóð hann af ýsu, þorski og ufsa. Var þetta fyrsta veiðiferð beggja skipa á nýju kvótaári.
Rúnar L. Gunnarsson, skipstjóri á Gullver, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að veiðiferðin hafi gengið vel. „Það má segja að þetta nýja kvótaár hafi byrjað afar vel. Við vorum að veiðum á Glettinganes- og Tangaflaki og aflinn var góður allan tímann. Við komum inn um hádegi í gær og það var haldið til veiða strax að löndun lokinni klukkan 10 í gærkvöldi,“ segir Rúnar.
Hilmar Jón Stefánsson, skipstjóri á Smáey, tekur undir með Rúnari og segir að nýtt kvóaár byrji vel. „Í þessum túr vorum við að veiða á Mýragrunni, Utanfótar og á Tangaflaki og vorum ágætlega sáttir við aflann. Það var haldið á ný til veiða strax og löndun lauk,“ segir Hilmar Jón.
Þess skal getið að Bergey VE, systurskip Smáeyjar, landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær og var uppistaða aflans ýsa og karfi. Að sögn Jóns Valgeirssonar skipstjóra fékkst aflinn á Mýragrunni og á Breiðamerkurdýpi. Í frystihúsinu á Seyðisfirði er lögð áhersla á vinnslu á ufsa um þessar mundir.
Gullver NS og Smáey VE landa framan við frystihúsið á Seyðisfirði í gær. Ljósm.: Þorgeir Baldursson.