Sjaldan lognmolla og mikil fjölbreytni
Maður vikunnar er kona sem hefur selt íslenskum neytendum ferskan fisk og fiskmeti í 17 ár í Fylgifiskum. Hún byrjaði að vinna í fiski 12 til 13 ára gömul, þar sem hún hafði 84 krónur á tímann. Það var tvöfalt meira en í bæjarvinnunni. Eftirminnilegast samstarfsmaður hennar er faðir hennar Logi Þormóðsson heitinn.
Nafn:
Guðbjörg Glóð Logadóttir.
Hvaðan ertu?
Ég er fædd og uppalin í Keflavík.
Fjölskylduhagir?
Bý ásamt Gunnari Barra syni mínum í Garðabæ.
Hvar starfar þú núna?
Eigandi og rekstaraðili hjá Fylgifiskum, sérverslun með sjávarfang og hef verið síðast liðin 17 ár.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Ég byrjaði að skera úr kola hjá Stokkavör í Keflavík 12-13 ára. Vann fyrir hádegi í bæjarvinnunni og fékk 42 kr á tímann en 84 kr eftir hádegi hjá Stokkavör. Enda gerði ég það með bros á vör og hefði viljað fullt starf en mátti það ekki sökum aldurs.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Lífið og fjörið. Sjaldan lognmolla og mikil fjölbreytni.
En það erfiðasta?
Í framleiðslu á ferskum matvælum er lítið hægt að vinna sér í haginn. Flest þarf að gerast samdægurs. Það getur verið erfitt að gera plön sem standa við slíkar aðstæður.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Ég afgreiði mikið að fólki og er í nánum samskiptum við viðskiptavini allan daginn. Það kemur mér ennþá á óvart hvað sumir koma illa fram við fólk í þjónustu sérstaklega ef þeir halda að viðkomandi sé óbreyttur starfsmaður.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Held ég geti svarað því að það var hann pabbi minn, Logi Þormóðsson. Ég var svo heppin að vinna hjá honum í ferskfisk vinnslunni hans, Tros, sem handflakari og læra tökin af honum. Flökin hans voru þau fallegustu sem sáust og ég kepptist við að ná þeim gæðum. Einnig var ógleymanlegt að læra af honum þegar hann seldi fisk til Ameríku en það gerðist ósjaldan í gegnum heimasímann á kvöldmatartíma fjölskyldunnar.
Hver eru áhugamál þín?
Hugleiðsla, sund, bókmenntir, kvikmyndir og matur.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Sjávarfang, ostrur, kræklingur, linkrabbar, kolar og risarækjur. En einnig alls konar heitkryddaður matur.