Tekur tíma að venjast skipinu

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú í sínum öðrum túr undir stjórn Friðleifs Einarssonar, sem áður var skipstjóri á Engey RE. Helga María var í leiguverkefni á Grænlandi í sumar en að því loknu færðist áhöfn Engeyjar yfir á skipið en Engey var sem kunnugt er seld til Rússlands sl. vor.

,,Þetta var langt sumarfrí en ég notaði það m.a. til að vera á strandveiðum. Það er þó gott að komast aftur á togveiðar og með mér er sá fasti kjarni manna sem voru með mér á Ásbirni RE og svo á Engey,“ segir Leifur, eins og hann er nefndur í daglegu tali.

Að sögn Leifs gekk fyrsti túrinn ekkert of vel.

,,Aflinn var um 65 tonn, mest þorskur, og það var ýmislegt sem hafði áhrif á aflabrögðin. Fyrir það fyrsta þá var ekki mikið af fiski og sömuleiðis tekur það mann sinn tíma að læra á skipið. Þetta er hörkufínt skip en allt öðru vísi en Engey og Ásbjörn ef út í það er farið,“ segir Friðleifur í samtali á heimasíðu Brims hf.

Leifur segist hafa byrjað í kantinum vestan við Halann en síðan hafi hann unnið sig inn á Halamið.

,,Stefnan er svo sett á Vestfjarðamið að nýju. Við stoppuðum ekki nema sólarhring í Reykjavík og mér sýnist ekki veita af tímanum, sérstaklega ef við þurfum að leita mikið að fisknum,“ segir Friðleifur Einarsson.

 

 

Deila: