Samæfing varðskipa og þyrlu

Deila:

Áhafnir varðskipanna Þórs og Týs héldu sameiginlegar leitar- og björgunaræfingar á Faxaflóa í síðustu viku. Æfingin var liður í að stilla saman strengi áhafna beggja varðskipa en ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar tók sömuleiðis þátt.

Í fyrsta hluta æfingarinnar, sem fram fór á miðvikudag, fengu áhafnirnar upplýsingar um að lítillar flugvélar væri saknað og að þeir sem í vélinni voru væru líklega í björgunargöllum. Leit að áhöfn flugvélarinnar var skipulögð og gekk vel.

Jafnframt var leitað að „kajakræðara“ sem hafði ekki skilað sér til Akraness á tilsettum tíma eftir að hafa róið frá Borgarnesi nokkrum tímum áður. Alls voru fjórir bátar sendir til leitar með ströndinni að austanverðu frá Landhólma og að brottfararstað. TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, aðstoðaði við leitina. Eftir nokkra leit fannst „kajakræðarinn“ í sjónum og var fluttur um borð í varðskipið Þór til aðhlynningar.

Á fimmtudag fóru svo fram dráttaræfingar þegar Þór var tvívegis tekinn í tog af varðskipinu Tý.

Æfingar sem þessar eru sérlega mikilvægar og heppnuðust afar vel. Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur St. Valdimarsson.

 

Deila: