Hvorki gróður né fiskur
Sæbjúgu eru hvorki gróður né fiskar heldur einn sex ættbálka innan fylkingar skrápdýra. Aðrir hópar eru krossfiskar, ígulker, slöngustjörnur, sæliljur og hópur sem á fræðimáli nefnist Concentricycloidea en hefur ekki fengið íslenskt heiti. Aðeins eru þekktar tvær tegundir í þessum síðastnefnda hópi og var sú fyrri uppgötvuð árið 1986 þannig að hér er um tiltölulega nýskilgreindan hóp að ræða.
Sæbjúgu finnst um öll heimsins höf, oftast á grunnsævi en þó lifa nokkrar tegundir á miklu dýpi. Þekktar eru um 1.100 tegundir sæbjúga
Sívöl líkamsbygging er eitt helsta einkenni þessa hóps skrápdýra. Dýrin eru afar misstór og geta verið á bilinu 2-200 cm á lengd og 1-20 cm á þykkt. Sæbjúgu eru yfirleitt svört, brún eða græn að lit en þó þekkjast mörg litaafbrigði. Innri stoðgrind hefur í þróunarsögunni minnkað mikið og er aðeins til staðar sem litlir hlutar á skinni dýrsins.
Yfirleitt eru dýrin með fimm raðir af pípufótum og nær hver röð frá munni, aftur að endaþarmi. Með þessum fótum geta sæbjúgun kraflað sig eftir sjávarbotninum líkt og krossfiskar og ígulker. Í kringum munninn eru þau með anga sem gegna því hlutverki að ná fæðu úr botnseti og bera hana í munninn.
Margt í líffræði þessara dýra hljómar afar undarlega. Meðal annars geta sæbjúgu losað sig við líffæri þurfi þau að villa um fyrir rándýrum en líffærin vaxa síðan aftur. Önnur vörn sem sæbjúgu hafa gegn afræningjum felst í því að seyta slími sem virðist rugla árásaraðilann í rýminu. Auk þess eru sæbjúgu þekkt fyrir að seyta vökva sem deyfir fisk og hafa eyjaskeggjar í Suður-Kyrrahafi notað vökvann til fiskveiða, en hann gerir mönnum ekki mein.
(Af vísindavef Háskóla Íslands)