Aukin aflaverðmæti á Vesturlandi

Deila:

Aflaverðmæti eftir landshlutum er ansi breytilegt og tekur yfirleitt mið af breytingum á heildarverðmæti afla yfir landið allt. Á þessu eru þó að öllu jöfnu nokkrar undantekningar. Sem dæmi um það má nefna að í mars dróst aflaverði á landinu öllu saman um 3%, þrátt fyrir verulega aflaaukningu.  Samt sem áður jókst verðmæti fiskafla á Vesturlandi um 35,8%.

Sveiflurnar milli landshluta nú eru miklar; Allt frá aukningunni á Vesturlandi um tæp 36% og falli niður í tæplega 40% á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.  Þá eykst verðmætið um 7,8% á Norðurlandi eystra, um 2,7% á Austurlandi, 2,9% á Suðurnesjum, en fellur um 1,4% á Suðurlandi og 9% á höfuðborgarsvæðinu.

Verðmætið er þó að vanda mest á höfuðborgarsvæðinu, 3,2 milljarðar króna. Austurland kemur næst með 2,7 milljarða, þá Suðurnes með 2,6 og Suðurland með 2,2 milljarða. Norðurland eystra er með 1,4 milljarða, Vesturland með 1,3, Norðurland vestra með 646 milljónir og Vestfirðir með 362 milljónir króna.

Sveiflurnar í verðmæti stafa bæði af lækkun á verði á fiski upp úr sjó, en einnig geta einstakar landanir frystiskipa haft mikið að segja. Verkfall var á fiskiskipaflotanum til miðs febrúar og raskaði það venjulegu löndunarmynstri margra skipa fram í marsmánuð. Þá veiddist mikil loðna í mars, sem gæti hafa breytt töluverðu. Mikil aukning á þorskafla milli mánaða er einnig líklega skýring á aukningu aflaverðmæta á Vesturlandi.

 

Deila: