Hafnarnes Ver vann úr 4.000 tonnum af sæbjúgum á síðasta ári

Deila:

Hafnarnes Ver í Þorlákshöfn hefur undanfarin ár verið umsvifamikið í veiðum og vinnslu á sæbjúgum. Í fyrra fóru um 4.000 tonn í gegnum fyrirtækið en heildarafli þá var tæp 6.000 tonn. Nú hafa aflaheimildir verið skornar verulega niður og verða 2.400 tonn á þessu fiskveiðiári að ráðleggingum Hafró. Við það missir Hafnarnes Ver mikinn spón úr aski sínum og segir stjórnarformaður þess að stofnunin fari of varlega í ráðleggingum sínum.

En við byrjum að ræða upphafið við Hannes. „Við vorum með þeim fyrstu en vorum ekki fyrst. Það eru um 12 ár síðan við byrjuðum. Þetta hófst í raun þannig að við vorum með verkefnalausan bát, Sæfara. Ég þekkti hann Óla í Reykofninum í Kópavogi og son hans sem hafði kynnst bæbjúgum í Japan. Þeir voru upphafsmennirnir að þessum veiðum í Grundarfirði. Í gegnum þá kviknaði áhugi minn á þessum veiðum og að koma bátnum í þetta verkefni.

Kaupendur ánægðir með framleiðsluna

Við fórum svo af stað og það gekk svona og svona, bæði að veiða og koma þessu á markað. Við náðum svo tökum á veiðunum  og síðar náðum við betri tökum á markaðnum, sem er eingöngu í Kína. Upp úr því komu Rússar með mikið framboð af sæbjúgum og þá hrundi verðið og birgðir hlóðust upp hjá okkur. Það varð hreinlega verðfall og tap á þessu dæmi. Við gáfumst samt ekki upp og smám saman tók þetta nýja stefnu. Við fundum nýja kaupendur og við lærðum betur á veiðar og vinnslu. Við höfum núna ágætis viðskiptasambönd og traust. Kaupendurnir koma og kíkja á okkur annað slagið og eru ánægðir með framleiðsluna,“ segir Hannes.

Hannes Sigurðsson

Það hafa verið ýmsar brekkur í þessu og ævintýri, og segir Hannes að þetta hafi ekki verið vandalaust. Þau byrjuðu veiðarnar í Faxaflóanum, en þá var búin að vera svolítil veiði í Breiðafirðinum. Síðan var farið að prufa fyrir austan land. Byrjað á Vöðlavík með góðum árangri og síðan hefur fyrirtækið haldið áfram að leita að og finna veiðisvæði og gengið það ágætlega.

Það er víða samdráttur

„Núna erum við með Friðrik Sigurðsson, Sæfara og Þrist á þessum veiðum. Við kaupum líka sæbjúgu af Ebba AK. Við höfum því verið að taka nokkuð mikið í gegn og í fyrra voru það um 4.000 tonn. Þetta hefur því skipt miklu máli hjá okkur síðustu árin og því kemur samdrátturinn núna töluvert við okkur. En það er víða samdráttur. Humarinn er týndur og sárt er að vita til þess. Rækjuveiðar hafa hrunið. Einu sinnu var veiði milli 60.000 og 70.000 tonn. Nú er  hún um 5.000 tonn og svo virðist loðnan vera að yfirgefa okkur. Það er því víðar en í sæbjúgunum sem er dágóð niðursveifla. Svo ofverndum við þorskinn.

Svo kemur Hafró til sögunnar. Maður er nú ekki alveg sammála þeim um niðurskurðinn á aflaheimildum eins og hann hefur verið ákveðinn. Það er allt í lagi að hlífa Faxaflóanum um tíma, en við teljum að mikið sé um vannýtt svæða víða annars staðar og þar mætti sækja meiri afla. Þeir eru að mínu mati of varkárir í þessum efnum. Þeir bera því við að það vanti peninga til rannsókna, því viti þeir ekki um hvað önnur ókönnuð svæði þoli mikla veiði. En það verður að taka áhættu, það þurfa allir að gera í lífinu. Það er kominn heildarkvóti sem skiptist niður á veiðisvæði og niðurskurðurinn er mikill frá síðasta ári. Við höfðum verkefni við þessar veiðar og vinnslu allt árið, en svo verður ekki núna. Í þekkingarleysi Hafró og okkar eru þeir alltof varkárir. Þeir vita ekkert meira um þetta en ég og þú. Því er nú andskotans ver. Heildarkvótinn fer niður í 2.400 tonn, en veiðin á síðasta ári var um 5.600 tonn,“ segir Hannes

Sæbjúgum pakkað hjá Hafnarnesi Ver í Þorlákshöfn,

Vinnslan á sæbjúgum er mjög einföld. Þau eru heilfryst í langflestum tilfellum. Einstaka kaupendur biðja um þau skorin. Þá fara þau í vél sem sker þau eftir endilöngu og þá fer sjórinn úr þeim. Það er töluvert af sjó í þeim þegar þau eru veidd. Því má segja að þá sé ekki verið að frysta og flytja út sjó. „Svo höfum við aðeins verið að prufa að þurrka þau, en það er bara okkur til gamans,“ segir Hannes.

Bjúga á dag kom keisaranum í lag

Bjúgun fara öll til Kína og þar eru þau aðallega notuð sem fæðubótarefni. Fallegustu bjúgun eru valin úr og eru þurrkuð og sett í mjög fallegar gjafapakkningar og þykja mjög góðar gjafir við hátíðleg tækifæri. Þá eru þau orðin alveg gegnþurr, en síðan eru þau lögð í bleyti í um tvo sólarhringa og þá taka þau í sig mikinn raka og tútna út. Síðan eru þau soðin og skorin niður í strimla og notuð í súpur og salöt og með öðrum mat. Kínverjar hafa trú á því að neyslan sé til mikilla bóta fyrir heilsuna. Það er sagt að keisarinn í Kína hafi fyrr á öldum borðað eitt sæbjúga á hverjum morgni sér til heilsubótar. „Það sýnir að Kínverjar hafa þekkt þessa fínu afurð öldum saman og ég held að það sé ekki út af engu sem þeir hafa trú á þessu. Ég hef auðvitað prufað þetta, en ég get ekki sannað að þetta hafi orðið mér til bóta, en ég er alla vega ekki verri en ég var þegar ég byrjaði nota þetta. Ég veit um fólk sem hefur verið að borða þetta, sérstaklega fólk sem hefur átt við liðagigt að stríða og það hefur fengið bót sinna meina. En þetta virkar ekki á alla, virðist vera svolítið einstaklingsbundið. Það eru fyrirtæki hér sem eru framleiða úr þessu pillur sem fólk er að nota sér til heilsubótar,“ segir Hannes.

 

Deila: