„Maðurinn er mannveisla“

Deila:

Maður vikunnar í dag starfar hjá Slippnum á Akureyri. Hann er þessa dagana að vinna í verkefnastjórnun fyrir næsta vinnsluþilfar, sem sett verður upp við Slippkantinn. Hann byrjaði ungur í fiski og síðan lá leiðin á sjóinn. Hann tók vélvirkjasamning hjá Slippnum  og vann þar sem vélvirki meðan hann var að klára sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri.

Nafn:

Ásþór Sigurgeirsson.

Hvaðan ertu:

Ég fæddist á Húsavík árið 1986 og ólst þar upp. Flutti að heiman nýorðinn 16 ára og lærði vélstjórn og rafvirkjun á Akureyri. Hef svo mestmegnis búið þar að undanskildum tveimur árum í Reykjavík og einu á Spáni.

Fjölskylduhagir:

Ég er giftur Karen Sveinsdóttur og saman eigum við synina Eldar og Frosta. Að ógleymdum kettinum Snata.

Hvar starfar þú núna?

Núna starfa ég við hönnun og þróun í Slippnum Akureyri. Ég tók vélvirkjasamning þar fyrir 10 árum og vann svo sem vélvirki þar síðast liðin þrjú ár á meðan ég lærði sjávarútvegsfræði við HA. Svo ég flutti mig um set innan Slippsins í sumar. Er reyndar í augnablikinu að vinna í verkefnastjórnun fyrir næsta vinnsluþilfar sem verður sett upp hérna við Slippkantinn.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði að vinna í saltfiski upp úr aldamótum þá líklega svona 14 eða 15 ára, a.m.k enn í grunnskóla. Fór svo á sjóinn 17 ára og vann við það næstu 13 árin. Í vél frá 19 ára aldri.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er mikil gróska í greininni um þessar mundir og fullt af skemmtilegu fólki. Sumir eru mjög opnir fyrir nýjungum og ég sé til dæmis að menn eru farnir að „sjóvæða“ lausnir úr eldisgeiranum og taka inn alls konar lausnir úr öðrum greinum. Eins voru upphafsárin á sjónum spennandi sem og heimasíldarvertíðirnar inná Breiðafirði. Þær voru algerlega geggjaðar.

En það erfiðasta?

Ætli það séu ekki helst langar fjarverur.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Kannski að verða í fyrsta og eina skipti vatnslausir um borð akkúrat í eina túrnum þar sem kona var munstruð um borð. Var það út af því að ég gleymdi austurskiljunni í gangi í sólarhring eða var því að allir peyjarnir þrifu sig í bak og fyrir?

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég ætla að segja Birgir Indriðason frá Skálum á Langanesi. Vorum saman á Júpíter um nokkurra ára skeið. Maðurinn er mannveisla.

Hver eru áhugamál þín?

Fjallahjólreiðar, björgunarstörf og ferðamennska eru líklega efst á blaði. Þar á eftir koma svo bara þau verkefni sem við fjölskyldan tökum okkur fyrir hendur. Strákarnir okkar halda okkur alveg á tánum svo að það er eitt og annað spennandi við að vera.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Íslensk kjötsúpa skaust upp í fyrsta sætið fyrir mörgum árum þegar ég hafði gengið af mér lappirnar í leitarútkalli uppi á hálendi og konurnar í slysavarnardeild kvenna á Húsavík elduðu handa okkur kjötsúpu. Á svona öðrum eða þriðja degi. Síðan þá hefur hún setið þar sem fastast og kemur líklega bara til með að gera það.

Hvert færir þú í draumfríið?

Núna væri það fjallahjólaferð í alpana með Karen minni og kannski einhverjum vinum.

Fjölskyldan á ferðalagi.

 

 

Deila: