Mjög góð síldveiði í haust

Deila:

,,Það er óvissa um framhaldið hjá okkur. Það verður búið að landa úr skipinu seinni partinn á morgun. Það er lítið eftir af kvótanum og annað hvort förum við eina veiðiferð á síldina eða bíðum fram í nóvember eftir því að kolmunnaveiðin hefjist,“ segir Theódór Þórðarson, skipstjóri á Venusi NS en þá var verið að landa um 1.200 tonnum af síld úr skipinu á Vopnafirði. Rætt var við Theódór á heimasíðu Brims í gærkvöldi.
Venus kom til Vopnafjarðar um miðjan dag á þriðjudag og Theódór segir að veðrið á leiðinni hafi við slæmt.
,,Það var bræla sem tafði okkur og það er spáð leiðindaveðri á miðunum út vikuna. Síldin er komin austarlega í Síldarsmuguna og þannig var um 400 sjómílna stím til Vopnafjarðar frá þeim stað sem við hættum veiðum.“
Að sögn Theódórs hefur síldveiðin gengið mjög vel í allt haust.
,,Það er fyrst nú sem dagamunur er að verða á veiðinni. Síldin er farin að halda sig á ákveðnum blettum og það lóðar víða á síld. Sum lóðin gefa mjög góðan afla á meðan önnur skila mun minna. Okkar reynsla er sú að aflinn er mun betri á daginn en nóttinni. Síldin virðist þétta sig í átu á daginn,“ segir Theódór en hann kveður síldina hafa verið mjög væna í allt haust. Meðalvigtin nú er 380 til 420 grömm.

 

 

Deila: