Tilvonandi ferð í tilraunatankinn

Deila:

Nú styttist óðum í hina árlegu ráðstefnu Hampiðjan Ísland í tilraunatankinn í Norðursjávarmiðstöðinni í Hirtshals í Danmörku. Ferðin mun standa dagana 26. til 30. nóvember nk. og að sögn Jóns Odds Davíðssonar, framkvæmdastjóra Hampiðjan Ísland, vill svo skemmtilega til að rétt 40 ár eru liðin frá fyrstu skipulögðu kynningarferðinni  fyrir íslenska skipstjórnarmenn í tilraunatank erlendis en þá var farið í heimsókn í tilraunatankinn í Hull í Englandi.

Jón Oddur hefur haft veg og vanda af skipulagningu ferðarinnar nú og hann segir að fjöldi þátttakenda liggi ekki endanlega fyrir.

,,Undanfarin ár hafa þetta verið um 50 manns. Flestir þátttakendanna hafa verið frá Íslandi en við verðum einnig með gesti frá Rússlandi, Hollandi og Portúgal og jafnvel víðar,” segir Jón Oddur í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar, en að hans sögn munu um átta til níu starfsmenn frá Hampiðjunni Ísland og tveir til þrír frá samstarfsaðilum vera á staðnum. Markmiðið er sem fyrr að sýna skipstjórnarmönnum hvernig togveiðarfæri fara í sjó við sem raunverulegastar aðstæður. Ferðirnar eru einnig kjörinn vettvangur skoðanaskipta um allt það sem lítur að kjörhæfni togveiðarfæra og nýjunga í fiskleitartækni.

,,Við kynnum það sem við erum að þróa í botn- og flottrollum ásamt því að sýna það sem er í notkun á þeim stöðum sem menn koma frá. Á botntrollssviðinu sýnum við nýja Jagger trollið, nýjar útfærslur á H-toppnum, Gulltoppi og 3660 möskva rækjutrolli, Bacalao trollin og mjög áhugaverðan fjögurra byrða, þriggja spena poka með DynIce kvikklínum.

Í flottrollunum sýnum við flestar gerðir Gloríu Helix trollanna, þar á meðal 2048 m síldar- og makríltrollið og 1760 m makríltrollið. Við munum kynna nýju átta byrða flottrollsbelgina og T90 makrílpokana með DynIce kvikklínum. Einnig munum við kynna nýjungar í netum og köðlum sem við framleiðum.

Toghleraframleiðandinn Thyborøn verður með okkur að vanda og kynnir nýjungar í stýranlegum flot- og botnhlerum.

Þá mun fulltrúi frá Simrad kynna það nýjasta í veiðarfæramælum og fiskleitartækjum sem tengist því að Hampiðjan kynnti nýlega algera byltingu í gagnaflutningi með ljósleiðarakaplinum fyrir veiðarfæramæla og fiskleitartæki framtíðarinnar,” segir Jón Oddur Davíðsson.

Deila: