Bleikja í hvítlauks- og sítrónusósu

Deila:

Nú gæðum við okkur á bleikju. Bleikjan er einhver besti matfiskur sem fáanlegur er. Holdið er fallega bleikt, hún er ekki eins feit og lax er oft, en engu að síður rík af Omega3 fitusýrum og svo er bragðið af henni mjög sérstakt. Því er best að nota ekki of sterkt krydd á hana.
Ísland er stærsti framleiðandi af eldisbleikju í heiminum og er bleikja héðan eftirsótt á bestu sjávarréttastöðum beggja vegna Atlantsála

Innihald:

 • 1 kg bleikjuflök með roði, skorin í fjóra jafna bita
 • 2 msk. ólívuolía
 • 1 msk. Ítölsk kryddblanda (þurrkað timían, oregano og steinselja blandað saman).
 • ¼ tsk. salt
 • 4 hvítlauksrif, fínt sneidd
 • 3 msk. ferskur sítrónusafi
 • 2 msk. hvítvín
 • 2 msk. smjör
 • 2 msk. steinselja söxuð

Aðferð:

 1. Kryddið flakabitana á holdhliðinni með ítölsku kryddblöndunni og salti, ekki spara kryddið. Óþarfi er að krydda roðhliðina.
 2. Hitið olíuna á stórri og góðri pönnu þar til hún er snarpheit en látið hana ekki brenna. Leggið flakabitana á pönnuna með holdhliðina niður. Steikið bleikjuna í 3-5 mínútur eða þar til hún er byrjuð að brúnast.
 3. Snúið flökunum við og steikið áfram á roðhliðinni í 3-5 mínútur og gætið þess að olían brenni ekki.
 4. Takið pönnuna af hitanum og lokið henni og látið fiskinn jafna sig í 5-10 mínútur.
 5. Takið flakabitana af pönnunni og fjarlægið roðið, sé þess óskað, og leggið til hliðar. Gætið þess að hreinsa leifar af roði af pönnunni, ef einhverjar eru.
 6. Látið nú sneiddan hvítlaukinn á pönnuna og hellið sítrónusafanum og hvítvíninu út á. Látið malla í um mínútu eða þar til hvítlaukurinn fer að mýkjast. Takið pönnuna af hitanum og hrærið smjörið og steinseljuna út í þar til smjörið hefur bráðnað og sósan orðin silkimjúk.
 7. Setjið bleikjubitana aftur á pönnuna og ausið sósunni yfir þá. Stráið steinselju yfir og berið fram með soðnum karöflum og góðu salati að eigin vali.
Deila: