Vinnslustöðin sýnir sig og sér aðra í Kína

Deila:

„Kína er gríðarlega stór og mikill markaður og Vinnslustöðin hefur sótt þar verulega í sig veðrið og aukið hlut sinn á allra síðustu árum. Það hjálpar okkur og styður að taka þátt í sýningunni. Útflutningur sjávarafurða frá Kína hefur dregist saman en innflutningur hins vegar aukist stórlega. Við viljum svara kalli markaðarins og aukinni eftirspurn,“ segir Björn Matthíasson, framkvæmdastjóri VSV Seafood Iceland, sölufyrirtækis Vinnslustöðvarinnar.

Björn, Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri, Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu, og Yohei Kitayama, sölumaður VSV Japan, tóku í síðustu viku þátt í árlegri sjávarútvegssýningu í borginni Qingdao í Kína. Sýningin er risavaxin og hefur mikil áhrif á þróun sjávarútvegs og markaða fyrir sjávarafurðir í Kína og reyndar ná áhrifin að einhverju leyti til allrar veraldar.

  • Sýningin heitir fullu nafni China Fisheries & Seafood Expo og er nú haldin 24. árið í röð.
  • Sýnendur eru um 1.600 frá 53 ríkjum, þar á meðal er Vinnslustöðin með sýningarbás líkt og undanfarin ár.
  • Talið er að sýningargestir í ár hafi verið um 50.000!

 

Deila: