Mikið högg ef loðnuvertíð klikkar aftur

Deila:

Það verður mikið högg ef önnur loðnuvertíð í röð klikkar, segir framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í samtali á ruv.is. Það geti haft mikil áhrif á stöðu Íslands á erlendum mörkuðum.

Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuveiðar verði ekki leyfðar á komandi vertíð. Það yrði annað árið í röð því loðnuveiðar voru ekki leyfðar á þessu ári.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að það yrði gríðarlegt högg fyrir fyrirtæki, starfsfólk og samfélög sem eru háð loðnunni. Í Fjarðabyggð einni sé áætlað að tapaðar launatekjur vegna síðasta loðnubrests séu um 1,2 milljarðar króna.

Auk þess geti þetta skapað erfiðleika á mörkuðum erlendis. Langtíma áhrif á helstu markaði sé erfitt að meta, íslenska loðnan hafi haft sterka stöðu á Asíu markaði sem dæmi. Þá sé ekki gott að segja hversu vel gangi að komast inn á þá markaði þegar loðnan fer að veiðast aftur.

Gunnþór segir þó algengt að mælingar að hausti gefi ekki góð fyrirheit, mælingar í janúar breyti oft stöðunni. Hann segir erfitt fyrir fyrirtæki að draga saman því veiðar geti farið frá engu upp í mörg hundruð þúsund tonn á einni viku og þá þurfi allir að vera tilbúnir fyrir vinnsluna. Það sé þó reynt að draga úr fjárfestingum og öðru á móti tekjumissi, fyrirtæki þurfi samt alltaf að vera tilbúin að taka á móti vertíð. Það jákvæða við mælingarnar núna er að mikið var um ungloðnu, sem myndar veiðistofn fyrir þarnæstu vertíð. „Og bara vel fyrir ofan meðaltal síðustu áratuga þannig að ég held það sé full ástæða fyrir bjartsýni þar“ segir Gunnþór.

 

Deila: