SVN endurnýjar allan ísfisktogaraflota sinn
Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. föstudag kom fram að áformað er að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins á næstu árum. Skipin sem hér um ræðir eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE.
Togararnir Barði og Gullver eru gerðir út af Síldarvinnslunni en Vestmannaey og Bergey eru gerðir út af dótturfélaginu Bergur-Huginn. Barði NK var smíðaður árið 1989, Gullver árið 1983, en Vestmannaey og Bergey árið 2007.
Þegar er hafinn undirbúningur að þessu umfangsmikla verkefni og reyndar hófst hann á síðasta ári að sögn Gunnþórs B. Ingvasonar framkvæmdastjóra í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
„Sem liður í þessari endurnýjun var Bjartur NK seldur á síðasta ári til Íran og um þessar mundir er unnið að sölu á Barða NK til Rússlands. Blængur NK, áður Freri RE, hefur verið endurbyggður sem öflugur frystitogari og var hann tekinn í notkun fyrr á þessu ári. Hvað varðar söluna á Barða þá mun myndast eitthvað tómarúm frá sölunni og þar til nýtt skip kemur og verður leitast við að bjóða sjómönnunum sem lenda í slíku millibilsástandi störf á öðrum skipum félagsins eða í landi auk þess sem aðrar lausnir verða skoðaðar.
Endurnýjun skipa eins og hér um ræðir er stór ákvörðun en stefnan er skýr; fyrirtækið vill vera í fremstu röð hvað varðar hagkvæmni í rekstri, meðhöndlun afla og starfsumhverfi sjómanna. Þetta er metnaðarfullt og ögrandi verkefni sem felur í sér stórt framfaraskref,“ sagði Gunnþór.