Kjarasamningur milli sjómanna og SFS undirritaður
Kjarasamningur milli allra samtaka sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var undirritaður rétt eftir miðnætti. Samningurinn fer nú í kynningu og atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarfélaga SSÍ. Atkvæði um samninginn verða talin sunnudaginn 19. febrúar kl. 20:00 á skrifstofu ríkissáttasemjara.
Samningurinn var gerður án beinnar aðkomu stjórnvalda.
Fá frítt fæði og hlífðarfatnað
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í samtali á ruv.is að komið hafi verið að ögurstundu í kjaradeilu sjómanna og útgerðarinnar. Samningar náðust í nótt og fer samningurinn nú til atkvæðagreiðslu.
Heiðrún segir að öll mál nema eitt í viðræðunum hafi verið kláruð í vikunni. Sjómenn hafi viljað fá aðkomu stjórnvalda að viðræðum um dagpeningamál og skattalega meðferð þeirra. „Síðan í gær dró aðeins til tíðinda. Það var ekki samhljómur milli sjómanna og ríkisvaldsins um það hvernig útfærsla á þessu gæti orðið og þá var ekkert annað í stöðunni en að við myndum reyna að klára þetta og ég held að það hafi verið mjög jákvætt að við hefðum getað gert samninga án aðkomu ríkisvaldsins. Ég held að það sé best fyrir alla aðila málsins.“
Heiðrún Lind var spurð að því í Vikulokunum hvort samningamenn hefðu fengið vísbendingu um að þeir væru að renna út á tíma með að fá á sig hugsanlega lagasetningu. Heiðrún segir að það væri vægt til orða tekið. „Eftir tíu vikur í verkfalli að þá veistu að það mun draga til tíðinda ef menn ná ekki saman. Það var sagt við okkur að það myndi vafalaust skella á á næstu dögum ef ekkert yrði að gert.“
Sjómenn hafa fengið greiddan 1600 krónur í mat á dag í fæðispeninga sem skattar hafa verið greiddir af. Heiðrún segir að um það sé samið að fæðið verði sjómönnum endurgjaldslaust og það sama eigi við um hlífðarföt. Samningarnir komi til með að kosta útgerðina yfir tvo milljarða króna aukalega á ári.
Við náðum bara saman
Samtalið á milli okkar og atvinnurekenda. Við náðum bara saman. „Það var ekkert endilega eitthvað eitt til þess. Menn töluðu bara vel saman og náðu samningi,“ sagði Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands í samtali við fréttastofu RUV í nótt.
Hann vildi ekkert gefa upp um efni samningsins, en gaf þó upp að tillaga sjávarútvegsráðherra hafi ekki gengið nógu langt til þess að ná að verða hluti af honum. Þess í stað hafi útgerðin tekið stærri hluta á sig.
Nú tekur við kynning samninganna til félagsmanna og ætlar Sjómannasambandið að hafa snör handtök. „Við kynnum samninginn fyrir félagsmönnum um helgina,“ sagði Konráð og bætti því við að greidd verði atkvæði um hann þar til á morgun. Verði samningurinn samþykktur fara fyrstu skip frá höfn annað kvöld.
Líst ótrúlega vel á þetta
Með kjarasamningum sjómanna og útgerða er verið að koma í veg fyrir varanlegt tjón í greininni og fyrir þjóðarbúið og tryggja atvinnu bæði þeirra sem deildu og þeirra sem vinna í afleiddum störfum eins og fiskvinnslu. „Samningsaðilar stóðu sig eins og hetjur,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is.
„Mér líst ótrúlega vel á þetta. Samningsaðilar risu undir traustinu sem ég alla tíð bar til þeirra,“ segir Þorgerður og bætir við að lok verkfalls séu gríðarlega dýrmæt fyrir greinina og ekki síður fyrir kjaraviðræður sem séu fram undan og sendi þau skilaboð til deiluaðila að það sé þeirra að klára samninga án aðkomu ríkisins.
Þorgerður segist hafa trú á því að mestallur eða allur loðnukvótinn veiðist á næstu vikum verði samningurinn staðfestur. „Síðustu dagar eru búnir að vera dýrir fyrir þjóðarbúið,“ segir hún og bætir við að fréttir næturinnar séu stórkostlegar fréttir fyrir alla aðila.
„Nú mun uppbyggingarstarf hefjast að nýju,“ segir hún og vísar þar til þess að einhver viðskiptasambönd kunni að hafa slitnað og vinna þurfi að því að byggja upp markaðsstarf að nýju erlendis. „Það sem hjálpar okkur er gott hráefni og vöntun á fiski og áralöng reynsla við að markaðssetja fiskinn,“ segir Þorgerður aftur á móti um verkefnið fram undan.
„Eitt stórt takk og húrra fyrir samningsaðilum,“ segir Þorgerður að lokum, enda augljóslega mjög ánægð með bæði útgerðir og sjómenn. „Þeir eiga mikið lof skilið.“