Verð íslenskra sjávarafurða í sögulegu hámarki

Deila:

Verðlag íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur haldið áfram að hækka á þessu ári og var í sumar hærra en það hefur áður mælst. Verðið náði tímabundnu hámarki í kringum áramótin 2011 og 2012. Uppfrá því tók það að lækka og náði tímabundnu lágmarki í janúar 2014 og hafði þá lækkað um 6% á tveimur árum. Frá því í janúar 2014 hefur verðið hækkað um tæplega fjórðung mælt í erlendri mynt samkvæmt Hagsjá Landsbankans.

Skipta má útflutningi sjávarafurða í annars vegar botnfisk og hins vegar uppsjávarfisk. Botnfiskurinn hefur lengi vegið umtalsvert meira en uppsjávarfiskur en verð á botnfiski hefur hækkað töluvert á síðustu misserum og er það helsta skýringin á hækkandi verðlagi íslenskra sjávarafurða í heild sinni.

Verð á botnfiski fylgist að við heimsmarkaðsverð kjöts

Hækkunin á íslenskum botnfiskafurðum síðustu misseri hefur komið til á sama tíma og heimsmarkaðsverð á kjöti hefur hækkað. Töluverð tengsl hafa verið á milli verðs á kjöti og botnfiskafurða frá Íslandi. Þannig hefur verðþróun á botnfiski að nokkru leyti fylgt eftir verðþróun á kjöti með nokkurra mánaða tímatöf en áhrifin eru þó ekki mjög mikil og ekki hægt að segja að verð á botnfiski stýrist af heimsmarkaðsverði kjöts. Mun meiri sveiflur hafa einkennt verðþróun á kjöti en á botnfiski frá Íslandi. Þrátt fyrir að verð á botnfiski hafi almennt fylgt kjötverði hafa þó komið tímabil þar sem verð á botnfiski hefur haldið velli á sama tíma og verð á kjöti hefur gefið mikið eftir. Sem dæmi lækkaði verð á kjöti á einu og hálfu ári frá ágúst 2014 um tæplega þriðjung. Á sama tímabili hækkaði verð á botnfiski um 8,2%.

Verðhækkunin dregur úr áhrifum styrkingar krónunnar

Hækkunin á verði botnfisks að undanförnu kemur sér vel fyrir íslenskan sjávarútveg sem glímir nú við minnkandi samkeppnishæfni vegna sterkrar krónu. Hækkun verðs í erlendri mynt dregur því úr högginu sem styrking krónunnar hefur valdið á tekjustreymi útgerðarfyrirtækja. Á fyrstu 8 mánuðum ársins var verð á íslenskum sjávarafurðum 6,4% hærra en á sama tímabili í fyrra. Meðalgengi krónunnar var hins vegar 17% sterkara milli sömu tímabila og að öðru óbreyttu ættu tekjur sjávarútvegsins að hafa verið 9% minni á þessu ári en því síðasta.

Veiðar á þorski að koma til baka eftir sjómannaverkfallið

Veiðar á þorski hafa aukist verulega síðustu mánuði borið saman við sama tímabil árið áður. Veiðarnar drógust verulega saman í sjómannaverkfallinu sem stóð yfir í rúmlega tvo mánuði fram undir lok febrúar. Veiðar á þorski í desember, janúar og febrúar síðastliðnum voru samanlagt helmingi minni en í sömu mánuðum árið á undan. Á síðustu mánuðum hafa veiðarnar reynst í kringum fjórðungi meiri en í sömu mánuðum í fyrra en veiðar á fyrstu 8 mánuðum ársins eru enn tæplega 9% minni en á sama tíma í fyrra. Á síðasta fiskveiðiári sem lauk nú í ágúst námu veiðar 249 þúsund tonnum af þorski sem er 5,7% minni veiðar en á fiskveiðiárinu þar á undan. Þennan samdrátt má rekja til verkfallsins en útgerðir munu fá leyfi til að flytja allt að 30% aflaheimilda sinna milli ára til að mæta minni veiðum vegna verkfallsins.

Minna útflutningsverðmæti skýrist af minni veiðum

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 128,4 ma.kr. á fyrstu 8 mánuðum ársins á föstu gengi ágústmánaðar. Það er 7% lægra en á sama tímabili í fyrra. Minna útflutningsverðmæti skýrist einna helst af minna útfluttu magni sem skýrist af verkfallinu að stærstu leyti. Sé litið til einstakra tegunda hefur minna útflutningsverðmæti þorsks mestu áhrifin en útflutningsverðmæti hans dróst saman um 6,7 ma.kr. eða um 11,3% en til samanburðar dróst heildarútflutningsverðmætið saman um 9,6 ma.kr. og má því skýra 70% af heildarsamdrættinum með samdrætti í útflutningsverðmæti þorsks. Útflutningsverðmæti grálúðu dróst saman um 2,6 ma.kr. eða 44% og dróst útflutningsverðmæti karfa saman um 1,5 ma.kr. eða 17%. Almennt séð rímar minna útflutningsverðmæti á föstu gengi milli ára vel saman við minna útflutt magn sé litið til einstakra tegunda.

Deila: