Byggja fjölbýlishús á Neskaupstað

Deila:

Fyrir helgi undirrituðu Síldarvinnslan og Samvinnufélag útgerðarmanna (SÚN) samning við Nestak ehf. um þátttöku í byggingu ellefu íbúða fjölbýlishúss við Sólbakka 2 á Neskaupstað. Samkvæmt samningnum fjármagnar Síldarvinnslan þrjár íbúðir í húsinu og SÚN fjármagnar fjórar. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar segir að fyrsta skóflustungan hafi verið tekin 28. september. Húsið verður gert úr steinsteyptum einingum og er ráðgert að byrjað verði á að reisa þær snemma í desembermánuði. Þá er áformað að framkvæmdum við húsið ljúki í lok næsta árs.

„Íbúðirnar í húsinu eru 79,9 fermetrar að stærð, sex á efri hæð og fimm á neðri hæð. Á neðri hæðinni eru að auki geymslur fyrir allar íbúðirnar. Það er fasteignasalan Byr sem annast sölu íbúðanna. Verkefnið verður kynnt á fundi sem haldinn verður á Hótel Hildibrand í Neskaupstað fimmtudaginn 16. nóvember nk. klukkan átta og verður Elín Káradóttir frá fasteignasölunni Byr á fundinum.

Segja má að bygging umrædds húss sé austfirskt verkefni að nánast öllu leyti. Auk Nestaks koma eftirtalin fyrirtæki að verkinu: KJ Hönnun arkitektastofa, Efla hf. verkfræðistofa, MVA framleiðir steyptu einingarnar, Héraðsverk og Austurríki sáu um jarðvinnu, ISA Raf annast rafvinnu og Fjarðalagnir sjá um pípulagnir,” segir í fréttinni.

Deila: