Minna utan í gámum í ágúst

Deila:

Verðmæti afla sem landað er til útflutnings í gámum var 496 milljónir króna í ágúst síðastliðnum. Það er samdráttur um 6,6% miðað við sama mánuð í fyrra. Séð miðað við 12 mánaða tímabil frá september 2018 til ágúst 2019 er verðmætið 6,7 milljarðar og hefur hækkað um 35% miðað við 12 mánuði þar á undan.
Þetta kemur fram í upplýsingum Hagstofu Íslands um verðmæti landaðs afla og ráðstöfun hans. Heildarverðmæti landaðs afla í ágúst var 14,4 milljarðar króna, sem er vöxtur um 21,3%. Til vinnslu innan lands fór fiskur að verðmæti 7,4 milljarðar, sem er vöxtur um rétt tæpan þriðjung. Verðmæti landaðs afla á fiskmörkuðum til vinnslu innan lands var 1,6 milljarður króna, sem er samdráttur um 0,2%.

Þegar litið er til 12 mánaða tímabils er verðmæti landaðs afla til vinnslu 75,6 milljarðar króna, sem er aukning um 8,1% miðað við næstu 12 mánuði þar á undan. Aflaverðmæti á innlendum mörkuðum er á sama tíma 22,5 milljarðar króna, sem er vöxtur um 21,7%. Á sama tíma er verðmæti landaðs afla alls 142,6% milljarðar króna sem er 14% vöxtur. Þessar tölur gefa til kynna að dregið hafi úr löndunum á fiskmarkaði og aukið hlutfall aflans fari beint til vinnslu. Sérstaklega í ljósi þess að verð á fiskmörkuðum hefur hækkað um 30% til 40% frá því á síðasta ári.

Verðmæti afla í sjófrystingu var í ágúst 4,8 milljarðar, sem er aukning um 15,5% og á síðustu 12 mánuðum var aukning í sjófrystingu 17,8% miðað við verðmæti.

Deila: