Blíða strandaði síðastliðið sumar

Deila:

Blíða SH277, sem sökk í gær, strandaði líka á skeri við Breiðafjörð í júní á þessu ári. Skipstjóri segist ekki hafa orðið var við skemmdir á bátnum. Skýrslutökur fóru fram á Akranesi í gær. Ólafur Jónsson, annar tveggja skipstjóra á Blíðu, segir í samtali á ruv.is hana hafa verið nýyfirfarna í slipp og í góðu standi.

„Hún var tekin öll í gegn í vor og við byrjuðum snemma. Það var búið að ganga mjög vel hjá okkur, góð veiði og allt gengið eins og best verður á kosið,“ segir hann.

Í júní strandaði Blíða á skeri á Breiðafirði. Ólafur segist ekki hafa orðið var við neinar skemmdir á bátnum þá og að það sé óskýrt hvað hafi orðið til þess að hann sökk.

„Vonandi kemur bara eitthvað í ljós í rannsókninni sem er að fara fram núna. En, nei, skipið var í hundrað prósent ástandi.“

Skýrslutökur fóru fram á Akranesi í gær samkvæmt lögreglunni á Vesturlandi. Hún vill ekki segja til um hver næstu skref eru.

Unnið er að því að finna nýjan bát til að sækja veiðarfæri sem urðu eftir þegar Blíða sökk. Ólafur segist þá sjá eftir Blíðu.

„Að sjálfsögðu er mannbjörg aðalmálið í þessu, en það er eftirsjá í góðum bát sem gaman var að vinna á. Það eru forréttindi fyrir gamlan jálk eins og mig sem búið var að henda úr togurunum í land fyrir löngu. Ég hef gleði og áskorun í því að veiða beitukóng í Breiðafirði og vona að ég geti haldið því áfram,“ segir Ólafur.

 

Deila: