Útflutningurinn þrefaldaður

Deila:

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 3,1 milljarði króna í október og hefur aldrei áður verið meira í einum mánuði. Það er vel yfir þreföldun í verðmætum miðað við sama mánuð í fyrra, bæði í krónum talið sem og í erlendri mynt. Gengi krónunnar var að jafnaði um 3% veikara í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra miðað við gengisvísitölu.Var því minni munur á genginu á milli ára en verið hefur á öðrum mánuðum ársins enda veiktist gengið nokkuð hressilega á haustmánuðum 2018. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands hefur birt, en farið er yfir útflutninginn á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Verðmæt hátækniframleiðsla
Inn í ofangreindum tölum um útflutningsverðmæti eldisafurða er flokkur sem nefnist „lifandi eldislax, þar með talið seiði“. Ætla má að þar sé um að ræða frjóvguð hrogn, en útflutningur á þeim er afar verðmætur, enda hátækniafurð. Verðmæti þess útflutnings var rúmlega 455 milljónir króna í mánuðinum, eða sem nemur um 15% af heildarútflutningsverðmæti eldisafurða í október.

Komið upp í 20 milljarða
Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið upp í rúma 19,9 milljarða króna. Það er um 90% aukning í krónum talið á milli ára en rúm 70% að teknu tilliti til gengisáhrifa. Gengi krónunnar var að jafnaði 10% veikara á fyrstu 10 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Er það stóraukin framleiðsla sem skýrir þessa aukningu, sér í lagi á eldislaxi. Þar af nam verðmæti lifandi eldislax, þar með talið seiði, rúmlega 1,9 milljarði króna á tímabilinu samanborið við tæpa 1,5 milljarð á sama tímabili í fyrra. Er aukning þar hátt í 30% á milli ára. Rímar þessi þróun afar vel við spá okkar um að verðmæti eldisafurða verði í kringum 24 milljarða króna í ár.

Kærkomin viðbót við útflutning
Öflugur og fjölbreyttur útflutningur er grundvallarforsenda þess að við getum búið við þau lífsgæði sem við kjósum okkur. Er því óhætt að segja að ofangreind þróun sé kærkomin búbót við útflutningstölur þjóðarbúsins, sem í heild eru ekki upp á marga fiska í ár. Þannig hafa verið fluttar út vörur fyrir rúma 543 milljarða króna í ár, 51 milljarði króna meira en á sama tímabili í fyrra. Þar af skýrir útflutningur skipa og flugvéla rúma 24 milljarða, en nettó áhrifin af slíkum útflutningi eru engin á þjóðarhag, þar sem á móti auknum útflutningi kemur það sem samdráttur í fjárfestingu í þjóðhagsreikningum.

Þannig að án skipa og flugvéla og að teknu tilliti til gengislækkunar krónunnar, dregst vöruútflutningur saman um tæp 5% milli ára. Þar að auki hefur verið talsverður vöxtur í útflutningi hátæknibúnaðs fyrir sjávarútveg og matvælaframleiðslu undanfarið, en erfitt er að festa hendi á nákvæma fjárhæð í þeim efnum þar sem hún kemur fyrir í allmörgum liðum í útflutningstölunum. Seðlabankinn gefur þessum lið einmitt gaum í síðustu spá sinni, auk eldisafurðanna, og reiknar með talsverðum vexti sem mun vega eitthvað upp á móti þeim samdrætti sem á sér stað í flestum öðrum liðum útflutnings.

 

Deila: