Verður hætta þessari djöfulsins þrjósku báðu megin

Deila:

„Það er alltaf ögurstund,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um frétt Morgunblaðsins þar sem talað erum að svo virðist sem að komið sé að ögurstund eftir nær tveggja mánaða verkfall sjómanna.

Valmundur SSÍ

„Það er ekkert meiri ögurstund núna en oft áður. Sumum finnst vera komið nóg og öðrum ekki, þannig er þetta bara,“ segir Valmundur í samtali við Vísi. Hann segir samninganefnd Sjómannasambandsins ætla að hittast í dag þar sem reynt verði að finna nýjar lausnir á kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna sem muni leiða til samninga.

„Það er bara verið að reyna að fá menn til að hugsa öðruvísi. Bæði við og útgerðarmenn verða að hætta þessari djöfulsins þrjósku báðu megin, það er það sem við erum að reyna að gera,“ segir Valmundur. Auk fundar samninganefndar Sjómannasambands Íslands munu einnig fjórar aðrar samninganefndir á vegum sjómanna funda í dag og morgun til að reyna að finna lausn á deilunni.

Valmundur segir þessi félög tala daglega saman og á von á því að samninganefndirnar muni hittast á næstu dögum til að bera saman bækur sínar.

Hann segir þetta langt því frá vera merki um uppgjöf af hálfu sjómanna og jafnframt að þetta sé ekki merki um að sjómenn séu orðnir stressaðir vegna loðnuvertíðarinnar. „Ekki við allavega,“ svarar Valmundur en það stefnir í eina verstu loðnuvertíðina í langan tíma.

Loðnukvótinn á þessari vertíð verður aðeins 57 þúsund tonn en hlutur íslensku skipana í honum verður aðeins 11.500 tonn. Í skýrslu þar sem lagt var mat á þjóðhagsleg áhrif verkfallsins kom fram að dragist verkfallið fram á loðnuvertíð geti þjóðarbúið orðið að milljarði króna.

Deila: