Lán fylgdi flíkinni til sjós
„Ég fékk gefins skyrtubol merktan olíufélaginu Skeljungi á sjávarútvegssýningu fyrir mörgum árum og tók eftir því að lán fylgdi flíkinni til sjós. Ef lítið fiskaðist fór ég í sturtu og klæddi mig í Skeljungsbolinn. Þá fór að ganga betur, það brást ekki. Bolurinn var þveginn og brotinn saman heima að loknum hverjum túr og fylgdi mér alla tíð. Ef ég var hins vegar á karfaveiðum klæddist ég yfirleitt rauðum skyrtubol. Það hjálpaði tvímælalaust.“
Þetta segir Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri sem er sestur í helgan stein eftir farsæla skipstjórn og sjómennsku í áratugi. Hann upplýsir að gæfan hafi oft verið honum hliðholl um dagana með því til dæmis að lesa í liti eða klæðast flíkum sem hann sannfærðist um að væru fisknari en aðrar í fataskápnum. Rætt er við hann á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum:
„Peysu á ég sem Kolla mín gaf mér og blaðaljósmyndari Vísis myndaði mig í árið 1973 um borð í Vestmannaey VE í Hafnarfjarðarhöfn. Sú mynd birtist þá og margoft eftir það þegar Vísir og síðar DV birtu fréttir tengdar sjávarútvegi.
Peysan varð þannig landsþekkt. Hún fylgdi mér alla tíð til sjós og verður alltaf með mér enda gæfuflík.
Ég ólst upp við það heima á Siglufirði að menn skyldu aldrei byrja á neinu á mánudögum og miðvikudögum og því hef ég fylgt alla tíð. Fyrsta veiðiferð hvers árs hófst til að mynda aldrei á mánudegi eða miðvikudegi. Ég kaupi heldur ekki áhöld, heimilistæki eða neina hluti yfirleitt á þessum dögum. Slíkt bíður bara næsta eða þar næsta dags.“
Það sýndi sig svo ekki varð misskilið sunnudagskvöldið 19. febrúar 2017 að mánudagur ER til mæðu hjá Sverri Gunnlaugssyni. Þá lauk lengsta sjómannaverkfalli Íslandssögunnar með því að kjarasamningur var samþykktur með naumum meirihluta eftir að vinnustöðvun hafði staðið í nær tíu vikur eða frá 15. desember 2016.
Þegar loks samdist kölluðu útgerðir og skipstjórar áhafnir snarlega til skips og gerðu klárt til að leggja úr höfn, þar á meðal Sverrir skipstjóri á Gullbergi VE. Honum var alveg sérstakt kappsmál að komast út fyrir miðnætti og það átti að takast en þá kom í ljós bilun í tölvukerfi í skipinu sem þurfti að bregðast við í hvelli. Skipstjórinn fór bókstaflega hamförum við að ræsa út viðgerðarmenn og hvetja þá til dáða.
Nærstaddir voru klárir á því að Sverrir hefði aldrei lagt úr höfn eftir miðnættið heldur beðið í sólarhring þegar runninn yrði upp þriðjudagur. Á mánudegi hefði hann ekki hafið fyrstu veiðiverk eftir verkfall. Ekki til að tala um.
Það tókst hins vegar að gera við í tæka tíð og Gullberg lagði úr höfn þegar sunnudagurinn var næstum því á enda runninn.
Öllum létti, mest samt skipstjóranum.
„Lengi vel var mér illa við töluna þrettán og er hreint ekki einn um það í veröldinni. Þegar ég var skipstjóri á Bergey VE voru fjórtán í áhöfn. Einu sinni vantaði fjórtánda manninn en við lögðum samt úr höfn og mér leið alls ekki vel með það.
Svo sýndi sig að túrinn gekk svona líka ljómandi vel og eftir það vorum við þrettán í áhöfn. Tíminn á Bergey var afskaplega góður og gæfuríkur í alla staði. Þrettán reyndist okkur lukkutala eftir allt saman.“
Kokkur til sjós á fimmtánda ári
Sverrir er sem sagt borinn og barnfæddur Siglfirðingur og óx úr grasi þar nyrðra. Pabbi hans var rafvirki og fleiri í fjölskyldunni störfuðu líka við rafmagn. Hnokkinn sá hins vegar aldrei annað en sjóinn og sjómennskuna og það þrátt fyrr að hann væri alltaf illa sjóveikur frá upphafi til enda sjóferða.
Hann byrjaði ferilinn fljótlega eftir fermingu á póstbátnum Drangi í áætlunarferðum milli hafna við Eyjafjörð og stundum til Grímseyjar, Hofsóss og Sauðárkróks. Þá var hann aðstoðarmaður Vals kokks í eldhúsinu en þegar Valur vildi taka sér frí fékk hann engan til að leysa sig af og taldi Sverri á að gerast kokkur.
Það varð úr að drengurinn var kokkur á Drangi í tvo mánuði, einungis fjórtán ára gamall. Ekki nóg með það, síðar á sama ári vantaði kokk á síldarbátinn Sigurð á Siglufirði og þar stóð Sverrir í eldhúsinu í hálfan annan mánuð eins og ekkert væri sjálfsagðara fyrir strák á þessum aldri. Hann skilaði sínu með ágætum.
„Ég var alltaf rosalega sjóveikur en á sjónum vildi ég samt vera. Næst lá leiðin á Æskuna á Siglufirði, þá sem háseti. Þegar ég var nýorðinn 17 ára fór ég svo til Vestmannaeyja á vertíð, kom þangað á sunnudegi snemma janúar og fór að vinna í Vinnslustöðinni. Meiningin var að fara norður aftur en af því varð ekki. Vertíðin í Eyjum stendur enn.
Sveitungi minn frá Siglufirði, Rabbi á Dala-Rafni, var þá með Hugin, Spýtu-Hugin eins og við kölluðum bátinn. Hann bauð mér að koma með sér í túr en ég svaraði að slíkt kæmi ekki til greina vegna sjóveikinnar. Á það vildi Rabbi ekki hlusta og ég sló til. Auðvitað vorum við ekki komnir langt þegar ég fór að kasta upp, fór í koju og svaf í fjóra tíma. Þá var ég ræstur austur á Vík eins og greifi til heilsunnar og hef varla fundið til sjóveiki eftir það.“
Í húsaskjóli á forsetrasetrinu
Sverrir kom eftir þetta víða við í sögu í Vestmannaeyjum og víðar á farsælum ferli sínum sem háseti, stýrimaður og skipstjóri. Nefna má Hugin, Hamraberg, Ófeig II, Berg, Vestmannaey, Bergey, Jón Vídalín, Gullberg, Sindra og Erling KE. Hann var um skeið hjá Meitlinum í Þorlákshöfn og var skipstjóri á þremur skipum sem báru heitið Jón Vídalín. Hann fylgdi þeim þriðja í röðinni til Vinnslustöðvarinnar við sameiningu fyrirtækisins og Meitilsins. Eftir það var hann skipstjóri hjá Vinnslustöðinni, var til dæmis með Gullberg í áratug og lauk ferlinum í september 2018 á Sindra VE sem áður hét Páll Pálsson ÍS.
„Ég fékk pláss á Bergi VE í ágúst 1967 og var hjá þeirri útgerð í aldarfjórðung. Bræðurnir Sævald og Kristinn áttu skipið og voru skipstjórar til skiptis. Þeir hvöttu mig til að fara í Sjómannaskólann í Vestmannaeyjum en ég færðist lengi vil undan því. Mér óx í augum að komast skammlaust í gegnum námsefnið en svo fór að ég hóf námið haustið 1970, hamaðist við lærdóminn og dúxaði við útskriftina 1972.
Meiningin var að fara aftur á Berg en útgerðin hafði þá skrifað undir samning um smíði togarans Vestmannaeyjar í Japan. Ég var ráðinn 2. stýrimaður og fór utan með áhöfninni til að sigla skipinu heim.
Við komum til Hafnarfjarðar í febrúar 1973. Þá gaus af krafti í Heimaey, við fréttum af gosinu á siglingu um Kyrrahaf. Í fréttum einhverrar útvarpsstöðvar var talað um að níu hefðu farist, hraun flæddi yfir bæinn, höfnin væri lokuð og bátar kæmust hvergi með fólk sem reyndi að flýja. Þetta var auðvitað tóm þvæla en við vissum ekki betur í heilan sólarhring eða þar til heyrðist í Eiði Guðnasyni fréttamanni í erlendri útvarpsfrétt segja frá atburðum eins og þeir gengu raunverulega fyrir sig. Ég var aldrei áhyggjufullur og hafði sterklega á tilfinningunni að allt færi vel að lokum. Það gekk eftir.
Kolla mín [eiginkonan, Kolbrún Þorsteinsdóttir] var komin suður og bjó í starfsmannahúsi á Bessastöðum ásamt eldri syni okkar, foreldrum sínum, tveimur öðrum fjölskyldum frá Vestmannaeyjum og ráðskonunni á forsetasetrinu. Við kynntumst því forsetahjónunum, Halldóru og Kristjáni Eldjárn, því mikla og mæta sómafólki.
Vestmannaey VE var gerð út næstu mánuði frá Hafnarfirði og við keyptum íbúð þar í bæ en bjuggum þar í skamman tíma því ákveðið var að færa skipið til Eyja og við eltum það heim, fluttum hingað haustið 1974.
Árið eftir eignuðumst við húsið að Birkihlíð 9 og þar búum við enn.“
Draumur og veruleiki
Sverrir Gunnlaugsson er maður draumspakur og nefnir nokkur dæmi því til stuðnings af sjónum eða tengd fjölskyldunni. Eftirfarandi sögu sagði hann og hver tæki ekki mark á táknmáli drauma eftir slíka upplifun?
„Þetta gerðist vorið 1981. Þá var ég með Vestmannaey VE og við Kolla höfðum eignast yngri drenginn. Um veturinn fór mig að dreyma gamlan mann, látinn fjölskylduvin á æskuheimili mínu. Við kölluðum hann afa sem segir allt sem segja þarf um tengslin.
Í draumunum rerum við á trilluhorni og mokfiskuðum í hvert sinn. Svo kom fram í maí og ég var á leið í veiðiferð, í mánuði sem alltaf var steindauður ár eftir ár og lítið sem ekkert fiskaðist landið um kring, hvernig svo sem á því stóð.
Nóttina áður en við lögðum úr höfn dreymdi mig að ég gengi niður bryggjuna og sá syni gamla mannsins moka vikri úr trillunni sem við höfðum fiskað svo vel á. Hún var yfirfull af vikri. Þeir mokuðu ofan af fjórum brjóstmyndum sem lágu þar undir hlið við hlið. Tvær myndir voru gular og tvær rauðar að lit. Ég vildi eiga myndirnar og tók þær í fangið en vaknaði þá.
Á næstu 22 sólarhringum veiddum við alls 620 tonn á Skerjadýpi í fjórum túrum, karfa í tveimur og þorsk í öðrum tveimur.
Brjóstmyndirnar rauðu og gulu í draumnum skiluðu sér þannig í afla sem ég upplifði hvorki fyrr né síðar í maímánuði.“
Dreymdi fyrir sameiningu fyrirtækja
Síðast en ekki síst rifjar Sverrir upp þegar hann dreymdi fyrir sameiningu Vinnslustöðvarinnar og Meitilsins í Þorlákshöfn. Það þurfti tvo drauma til, tvær nætur í röð!
„Fyrri nóttina dreymdi mig að við værum á leið til Þorlákshafnar í brjáluðu veðri á Jóni Vídalín og þeir á Brynjólfi hugðust fylgja okkur til hafnar. Meitillinn gerði þá út bæði þessi skip.
Við komumst aldrei á leiðarenda því búið var að grafa mikinn skurð í kringum Meitilinn og ómögulegt að leggja þar að.
Næstu nótt á eftir dreymdi mig að ég kæmi upp í brú Jóns Vídalíns í einstakri veðurblíðu. Sæli (Ársæll Guðmundsson, pabbi Gumma á Brynjólfi) var þá við stjórn skipsins. Mér verður litið út og sé að skipið er í innsiglingunni í Vestmannaeyjum á leið til hafnar með trollið úti!
Mér bregður hressilega og spyr Sæla hvað hann sé eiginlega að hugsa. Þá var farið að hífa og upp kom trollið vængjafullt af fiski. Við höfnina var mikill mannfjöldi saman kominn til að taka á móti okkur en það var eins og enginn gerði neitt veður út af því að Vídalín væri við veiðar í sjálfri innsiglingunni.
Í sömu andrá vaknaði ég.
Tveimur eða þremur dögum síðar var tilkynnt um sameiningu Vinnslustöðvarinnar og Meitilsins. Mig dreymdi sem sagt fyrir því að skip og kvóti kæmu frá Þorlákshöfn til nýrra heimkynna í Eyjum. Draumurinn var ljóslifandi og merkingin skýr.“