Yfirgefa sjómenn í Grindavík ASÍ?

Deila:

„Það kemur til greina að félagið segi sig úr ASÍ í kjölfar þessa máls. Við útilokum ekkert að svo stöddu,“ segir Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG), en á miðstjórnarfundi ASÍ þann 15. mars sl. hafnaði miðstjórn því einróma að veita SVG styrk upp á ríflega 62,1 milljón úr Vinnudeilusjóði ASÍ.

„Eins og gefur að skilja gekk hratt á fjármuni verkfallssjóðs SVG í þessu lengsta sjómannaverkfalli Íslandssögunnar sem lauk þann 19. febrúar. Þar sem verkfallið dróst á langinn varð verkfallssjóður okkur á endanum uppurinn og við þurftum að leita á náðir ASÍ með formlegri umsókn um greiðslu úr Vinnudeilusjóði ASÍ,“ segir Einar og bendir á að ASÍ hafi hvorki verið tilbúið að greiða úr sjóðnum þá fjárhæð sem SVG óskaði eftir né veita sjómönnum minni styrk úr sjóðnum.

„Afstaða ASÍ byggist alfarið á reglum um sjóðinn sem settar voru eftir að umsókn SVG var lögð fram. Það er ótækt að beita slíkum reglum afturvirkt.“

Upphæðin er heldur ekki slík að sjóður ASÍ ráði ekki við hana en að sögn Einars eru um 360 milljónir í Vinnudeilusjóði ASÍ.

Ekki sameiginlegir hagsmunir

Í rökstuðningi miðstjórnar ASÍ segir að við skoðun á því hvort umsókn SVG falli að reglum sem um Vinnudeilusjóð ASÍ gilda beri að hafa í huga megintilgang sjóðsins, þ.e. að styrkja stöðu hreyfingarinnar í átökum við atvinnurekendur vegna stórra sameiginlegra hagsmuna allra aðildarsamtakanna. Deila SVG við útgerðarmenn var ekki af þessum toga að mati miðstjórnar sambandsins.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir meira hafa komið til, höfnun ASÍ hafi einnig grundvallast á því að SVG hafi ekki nýtt eigin tekjustofna til fulls. Valmundur situr í miðstjórn ASÍ fyrir hönd Sjómannasambandsins.

„Í þessu máli þurfti ég að sitja hjá en auk þess skiptir Sjómannasambandið sér ekki af fjármálum einstakra aðildarfélaga,“ segir Valmundur og vísar til afgreiðslu miðstjórnar til frekari skýringar á niðurstöðu ASÍ en þar segir að SVG hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að efla fjárhagslegan styrk sinn til þess að geta staðið að baki sínum félagsmönnum í erfiðri deilu, sem þó mátti gera ráð fyrir að myndi bresta á í ljósi djúpstæðs ágreinings við SFS. Það geti ekki verið hlutverk sameiginlegra sjóða aðildarsamtaka ASÍ að taka þetta grundvallarhlutverk aðildarfélaganna að sér á sama tíma og viðkomandi félag nýti ekki eigin tekjustofna til þess verkefnis.
Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag.

Á myndinni er Einar Hannes Harðarson, formaður SVG. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: