Ýslenskt góðmeti

Deila:

Við Íslendingar borðum svo mikið af ýsu að það mætti gjarnan kalla okkur Ýslendinga. En það er engin skömm að því að kunna að meta ýsu. Hún er einhver besti matfiskur, sem fáanlegur er í heiminum. Fiskurinn með svörtu röndinni og þumalfingrafari skrattans klikkar ekki.

Innihald:

600 g ýsa roðflett og beinlaus
3 msk hveiti
1 tsk karrý
2 bananar
1 epli
1 rauðlaukur
6 sveppir
8 beikonsneiðar
1 ½ peli rjómi
200-300 g rifinn ostur
salt og pipar

Aðferð:

Skerið ýsuna í hæfilega bita. Blandið saman hveiti og karrý og veltið bitunum upp úr blöndunni. Léttsteikið bitana á pönnu og leggið síðan í eldfast mót og kryddið með salti og pipar. Skerið bananana og eplið í sneiðar og dreifið yfir fiskinn. Sneiðið rauðlaukinn og sveppina og steikið á pönnu. Hellið rjómanum út á pönnuna og þykkið með sósujafnara. Beikonið er skorið í bita og steikt á annarri pönnu og dreift yfir fiskinn.  Hellið rjómasósunni loks yfir fiskinn í mótinu og dreifið rifna ostinum yfir. Bakið í ofni við 180 gráður þar til osturinn er orðinn gullinn.
Berið fram með hrísgrjónum og brauði að eigin vali.

Deila: