Götunes sló met Vilhelms

Deila:

Færeyska uppsjávarskipið Götunes sló í síðustu viku met Vilhelms Þorsteinssonar EA. Götunes landaði þá 3.530 tonnum af kolmunna hjá Havsbrún í Fuglafirði. Vilhelm setti eldra met fyrr á árinu, þegar hann landaði 3.409 tonnum af loðnu hjá Havsbrún.  

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Götunes setur met í löndunum. Í janúar 2020 landaði skipið 3.300 tonnum af kolmunna í Killybegs á Írlandi. Það var þá stærsta löndun á uppsjávarfiski á Írlandi. Í næstu veiðiferð setti skipið enn eitt metið þegar það landaði 3.400 tonnum í Noregi og sló þar fyrra met sem Slaaterøy átti.

Götunes er eitt stærsta uppsjávarveiðiskip heimsins og getur borið 3.600 tonn þegar landað er í bræðslu. Ef hráefnið er ætlað til manneldis tekur skipið nokkru minna. Þegar Götunes setti fyrri metin var það undir nafninu Gitte Henning 1 því ekki var þá afráðið hvort skipið skyldi skráð í Færeyjum eða Danmörku, þaðan sem það var keypt. Útgerðarfélagið Varðin í Götu keypti Gitte Henning til að koma í stað Tróndar í Götu, en skipta þurfti um gír i honum. Ákvæði var í kaupsamningnum þess eðlis að skila skyldi skipinu, hefði fyrri eigandi þörf fyrir það.

Varðin seldi seinna sama ár skipið Jupiter til Kollafjarðar og þá varð það niðurstaðan að skrá Gitte Henning í Færeyjum undir nafninu Götunes.

Deila: