Nætursalan og Flugbrautin stóðu fyrir sínu

Deila:

„Heilt yfir er hægt að segja að það hafi verið fín veiði eftir áramótin. Aflinn hefur verið í mjög góðu lagi frá því í byrjun apríl og það helgast m.a. af því að veður hefur verið gott í stað þess óveðurs sem einkenndi veturinn.” Þetta sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey
AK, í samtali á heimasíðu Brims. Togarinn var að veiðum á Fjallasvæðinu svokallaða, SV af
Reykjanesi, í byrjun vikunnar.
,,Við byrjuðum túrinn reyndar norður í Víkurál. Það var rólegt yfir veiðunum til að byrja með en svo fengum við góðan afla í hinni svokölluðu Nætursölu. Aflinn var karfi, ufsi og þorskur. Svo fórum við suður í Jökuldjúp og þar fengum við góðan afla á Flugbrautinni, sem svo er kölluð, en svæðið er nokkurn veginn beint VSV af Snæfellsjökli,” segir Eiríkur en hann segir þarna vera mikið af þorski.
Úr Jökuldjúpinu var svo haldið suður á Fjöllin og var togarinn kominn þangað í vikubyrjun.
,,Það er ekki mikill afli. Karfinn hverfur yfirleitt af þessari veiðislóð þegar það kemur fram í maí en við erum að fá skrap af ufsa. Menn hafa lagt áherslu á ufsaveiðar í vetur og nú í vor og það skilar sér. Það er búið að veiða miklu meira af ufsa nú en maður á að venjast á þessum árstíma,” segir Eiríkur en hann reiknar með að enda veiðiferðina á Eldeyjarbankanum. ,,Við eigum að koma til hafnar á miðvikudag. Ég býst við því að vera hér á mánudag og aðfararnótt þriðjudags en fara svo á
Eldeyjarbankann. Okkur vantar eitthvað af þorski, miðað við skammtinn, og það hefur verið góð þorskveiði á Eldeyjarbankanum nokkuð lengi.”

Allar takmarkanir vegna hrygningar þorsks eru fallnar úr gildi en það hnussaði bara í Eiríki þegar minnst var á vertíðarsvæðið. ,,Þar er ekkert að hafa. Menn hafa verið að tékka á svæðinu sem
við megum fara á en þar er bara ýsa. Reyndar er sá fiskur að þvælast fyrir okkur um allan sjó. Menn forðast hins vegar ýsuna af fremsta megni enda gefur ýsukvótinn ekki tilefni til annars,” segir
Eiríkur Jónsson.

Deila: