Asískir fiskibögglar

Deila:

Íbúar Austurlanda fjær eru miklar fiskætur og þar er að finna ótrúlegan fjölda uppskrifta að fiskréttum. Þeir eru oftast einfaldir, auðveldir í matreiðslu og hollir. Hér leitum við í þennan mikla uppskriftabanka, en notum að sjálfsögðu íslenska ýsu í réttinn. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

3 msk. sojasósa

2 msk. vatn

½ msk. hvítt edik eða balsemic

½ tsk. hvítur pipar

1 msk. sesamolía

4 ýsubitar, roð- og beinlausir hver um 180g

40g engifer flysjaður og sneiddur þunnt

1 blaðlaukur sneiddur þunnt

1 tsk. sykur

Rautt chilli sneitt (má sleppa)

Aðferðin:

Hitið ofninn í 180C. Útbúið  fjóra hæfilega böggla úr smjörpappír og álpappír. Blandið saman í skál sojasósu, vatni, ediki, sykri, pipar og sesamolíu og hrærið vel saman. Leggið til hliðar.   

Skerið laukinn í tvennt. Sneiðið hvíta hlutann í þunnar sneiðar, en hann er bakaður með fiskinum. Skerið þá græna hlutann í tvennt langsum og síðan í þunnar sneiðar.   

Leggi álpappírinn á borðið og smjörpappírinn ofan á hann og mótið böggul. Skipið engifersneiðunum í fjóra jafna hluta. Einn hluti á hvert fiskstykki. Takið síðan helminginn af hverjum hluta og leggið á pappírinn. Leggið ýsubitana síðan þar ofan á og loks það sem eftir er af engifernum. Setjið síðan löginn jafnt í hvern böggul og loks chilli, ef það er notað. Lokið bögglunum síðan og bakið í heitum oflinum í 10-15 mínútur eftir þykkt.

Opnið bögglana og jafnið græna lauknum í hvern þeirra. Berið bögglana fram með soðnum hrísgrjónum og salati að eigin vali.

Deila: