Lítill botnfiskafli í júlí

Deila:

Heildarafli í júlí 2022 var 87,8 þúsund tonn sem er mjög hliðstæður afli og í júlí á síðasta ári. Botnfiskafli var 23,9 þúsund tonn sem er 17% minna en í júlí í fyrra. Af botnfisktegundum var þorskaflinn rúm 11 þúsund tonn. Af uppsjávartegundum veiddust tæp 62 þúsund tonn samanborið við 56 þúsund tonn í júlí í fyrra.

Á tólf mánaða tímabili frá ágúst 2021 til júlí 2022 var heildaraflinn rúmlega 1,5 milljónir tonna, tæplega 40% meira en landað var á sama tímabili ári fyrr. Þar af var uppsjávarafli rúmlega ein milljón tonna og botnfiskafli tæp 440 þúsund tonn.

Aflaverðmæti sjávarafurða á föstu verðlagi er ekki birt að sinni þar sem þeirri magnvísitölu er ætlað að meta áætlað verðmæti aflans í samanburði við fyrra ár. Við þessa útreikninga er stuðst við meðalverð fisktegunda frá síðasta fiskveiðiári. Örar verðhækkanir á fyrstu mánuðum ársins 2022 gera það að verkum að vísitalan gefur ekki rétta mynd af þróun aflaverðmætis og því er hún ekki birt.

Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu Hagstofunnar eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

 

Deila: