Karfa- og ýsukvótinn á þrotum

Deila:

,Það er kolvitlaust veður núna og spáin fyrir Vestfjarðamið er ekki góð. Áttin er NNA-læg og það er því hvergi skjól að finna. Ég ætla að nota bræluna til að lóna norður eftir. Helstu vonirnar eru bundnar við að finna eitthvað af þorski og ufsa á Þverálshorninu eða í Djúpkróknum án þess að karfinn þvælist þar fyrir,” segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfiskstogaranum Helgu Maríu AK er rætt var við hann á heimasíðu Brims síðastliðinn föstudag.

Er rætt var við Heimi var Helga María nýfarin úr Nesdjúpi. Aflinn þar var um tonn á tímann, mest þorskur. Má segja að aflinn hafi dottið verulega niður því er togarinn var þar nokkrum dögum áður var veiðin enn þokkaleg.

,,Við fórum frá Reykjavík um hádegi sl. miðvikudag en aflinn eftir veiðiferðina þá var um 135 tonn. Þá enduðum við í Nesdjúpi eftir að hafa veitt á Þverálshorninu og Halanum. Það fékkst ufsi með þorskinum á Þverálshorni en á Halanum var alltof mikið af karfa innan um ufsann,” segir Heimir en að hans sögn er staðan mjög þröng nú í lok kvótaársins.

,,Karfa- og ýsukvótinn er á þrotum. Það er búið að kortleggja stöðuna nokkuð vel. Austur á Strandagrunni hafa norðlensku togararnir aðallega fengið ýsu og hið sama á við um hraunið á Kolbeinseyjarsvæðinu. Vonir okkar hinna eru bundnar við Þverálshornið og grunnslóðina vestur af sunnanverðum Vestfjörðum. Auðvitað geta komið skot hér og þar og þá skiptir máli að vera á svæðinu eða skammt undan,” segir Heimir Guðbjörnsson.

Helga María á að koma til hafnar í Reykjavík á þriðjudag og togarinn nær því einni ferð til viðbótar á fiskveiðiárinu.

 

Deila: