Boðar frumvörp um nálefni sjávarútvegsins

Deila:

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar var birt í gær samhliða stefnuræðu forsætisráðherra.  Þar birtist yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður dreift sem þingskjali á Alþingi. Farið er yfir þessi mál á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Á lista matvælaráðherra er boðuð framlagning tíu frumvarpa og tveggja þingsályktana.  Gera má ráð fyrir a.m.k. helmingur frumvarpanna muni vekja upp mikla umræðu meðal smábátaeigenda og yfirlegu við gerð umsagna bæði í Samráðsgátt og til atvinnuveganefndar Alþingis þar sem þeim verður væntanlega vísað til.  Þau fjalla um:

Veiðistjórn grásleppu

„Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (veiðistjórn grásleppu).
Með frumvarpinu er lögð til markvissari veiðistjórnun á grásleppu. Horft er til þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram um veiðistjórn grásleppu undanfarin ár, þ.m.t. um skiptingu milli svæða og aðgerðir sem sporni gegn samþjöppun.“

Áætlað að leggja fram sem þingskjal í febrúar.

Svæðaskipting strandveiða

„Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (svæðaskipting strandveiða). 
Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði að nýju upp svæðis- og kvótaskipting strandveiða sem miði við fjögur svæði með hliðsjón af veiðanleika botnfisks á hverju svæði um sig.“

Áætlað að leggja fram sem þingskjal í febrúar.

Heimild fyrir stærri togskip til veiða innan 12 mílna

„Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (aflvísar o.fl.). 
Í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er mælt fyrir um skilyrði sem varða heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna beltis fiskveiðilandhelginnar, m.a. um hámarkslengd og vélarafl. Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á þessum reglum hvað varðar svonefnda aflvísa í því skyni að greiða fyrir orkuskiptum og þá sérstaklega notkun tvíorkuskipa í fiskveiðum.“

Áætlað að leggja fram sem þingskjal í nóvember.

Hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda –

Umsögn LS:   Frumvarp til laga um breytingu á lögum (aflvísir og orkuskipti).pdf.

Rafvæðing smábáta

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (rafvæðing smábáta). 
Með frumvarpinu er lagt til að með bráðabirgðaákvæði verði þeim fiskiskipum heimilt á fiskveiðiárinu 2022/2023 sem knúin eru rafmagni sem aðalaflgjafa að landa 750 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð á strandveiðum.“

Áætlað að leggja fram sem þingskjal í nóvember.

Hefur verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda –

Umsögn LS – rafvæðing smábáta á strandveiðum.pdf

Viðurlög og tengdir aðilar

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlög og tengdir aðilar).  
Með frumvarpinu er brugðist við ábendingum í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2019. Lagt er til að komið verði á fót heildstæðu viðurlagakerfi vegna brota á helstu lögum á sviði fiskveiðistjórnar; á lögum nr. 57/1996, nr. 116/2006, nr. 79/1997, nr. 22/1998 og nr. 151/1996. Þá er lagt til að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeild og tengda aðila verði afmarkað nánar.

Áætlað að leggja fram sem þingskjal í mars.

 

Deila: