Thor Ice gerir góðan samning

Deila:

Íslenska hátæknifyrirtækið Thor Ice Chilling Solutions hefur landað samningi við LDC Group, einn stærsta kjúklingaframleiðanda Evrópu. Með samningnum hefur ískrapatækni Thor Ice verið komið upp í VDK verksmiðjunni í Frakklandi, en hún framleiðir um milljón kjúklinga á viku. Frá þessu er greint á vb.is

Þorsteinn Ingi Víglundsson, framkvæmdastjóri Thor Ice, segir áfangann marka ákveðin tímamót. Fyrirtækið sé nú komið af sprotastigi yfir á vaxtarstig. „Við ætlum að sækja okkur meira fjármagn og finna öfluga samstarfsaðila sem geta hjálpað okkur að koma lausninni inn í helstu verksmiðjur Evrópu. Í framhaldi teljum við lausnina eiga erindi á aðra markaði t.d. Suður- og Norður-Ameríku, en einnig Asíu. Vandamálið er alþjóðlegt, en fyrst þarf að ná skýrum árangri á þeim mörkuðum sem eru okkur næstir.“

Thor Ice velti 180 milljónum króna í fyrra, en til samanburðar nam velta 170 milljónum króna árið áður. Tap síðasta árs nam 8,5 milljónum króna og dróst saman um 13,5 milljónir frá fyrra ári.

 

Deila: