Þrjár athugasemdir við stækkun Sauðárkrókshafnar

Deila:

Í matsáætlun framkvæmdaraðila eru kynnt áform Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Skagafjarðarhafna um stækkun Sauðárkrókshafnar á Sauðárkróki og gerð grein fyrir hvernig fyrirtækið hyggst standa að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í matsáætluninni kemur fram að áætlað umfang landfyllingar sé 256.000 m3 og 4,34 ha að flatarmáli.

Stefnt er að því að nota efni úr námum sem og efni sem fellur til við uppgröft húsgrunna í sveitarfélaginu og dýpkunarefni. Þá er fyrirhugað að höfnin á Neðri Eyri verði stækkuð til austurs, einnig stendur til að lengja sandfangara og halda áfram með landvinninga.

Áframhald verður á viðhaldsdýpkun í innri höfninni, lenging verður á Norðurgarði auk landfyllingar í Sætúni ásamt nýrri bryggju og landfyllingu sunnan Suðurgarðs, reisa á byggingar og fara í gatnaframkvæmdir.

Í samræmi við 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 hefur Skipulagsstofnun farið yfir framlagða matsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Skagafjarðarhafna ásamt umsögnum og viðbrögðum framkvæmdaraðila við þeim. Við vinnslu og framsetningu umhverfismatsskýrslu þarf að:

  1. Mengun við dýpkunar- og landfyllingarframkvæmdir:
    í umhverfismatsskýrslu þarf að gera grein fyrir niðurstöðum mælinga á mengun í botnseti m.t.t. viðmiðunargilda á styrk mengangi efna í dýpkunarefni og gera ítarlega grein fyrir hvernig verði farið með dýpkunarefni sem reynist það mengað að ekki megi varpa því í hafið, skv. leiðbeiningum Umhverfisstofnunar, og eftir atvikum ekki unnt að nýta í landfyllingar. Þá þarf einnig að greina frá hvernig verði staðið að því að flytja mengað efni sem unnt er að losa í landfyllingar og koma því fyrir án þess að það mengi út frá sér.

    2. Lífríki:
    Í umhverfismatsskýrslu þarf að fjalla um áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda og leggja mat á áhrif dýpkana, gerð landfyllinga og efnislosunar á lífríkið, í ljósi niðurstöðu sýnatöku, og m.a. leggja mat á útbreiðslu gruggs og möguleg áhrif þess á lífríkið.

  2. Fráveita og byggingar á hafnarsvæði:

Í umhverfismatsskýrslu þarf að fjalla um og leggja mat á áhrif fráveituframkvæmda sem teljast hluti af hafnarframkvæmdunum. Í umhverfismatsskýrslu þarf að gera grein fyrir breyttri legu útrása og hreinsun fráveitu.

Deila: