Karfi aðeins tekinn sem meðafli

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík í vikunni eftir tvískipta veiðiferð. Fyrstu þrjá dagana var skipið á Vestfjarðamiðum og var aflanum landað í Reykjavík á fimmtudag. Um helgina var skipið svo að veiðum á Fjöllunum. Heildaraflinn var um 80 tonn.

,,Því er ekki að leyna að samdráttur í gullkarfakvótanum setur okkur mjög þröngar skorður hvað varðar sókn í aðrar tegundir. Við tökum karfann núna bara sem meðafla og ég fæ ekki betur séð en að það verði raunin út fiskveiðiárið,” segir Friðleifur Einarsson (Leifur), skipstjóri á Helgu Maríu í samtali á heimasíðu Brims.

Leifur segir að rólegt hafi verið yfir veiðunum á Vestfjarðamiðum.

,,Við byrjuðum á Halanum og reyndum einnig fyrir okkur nokkuð víða í kantinum. Því miður var enginn ufsi að ráði á slóðinni og aflinn var því aðallega þorskur og karfi.”

Eftir stím suður og löndun á um 50 tonna afla í Reykjavík var haldið suður á Fjallasvæðið. Leifur segir að þótt alls staðar hafi orðið vart við karfa þá hafi tekist að veiða meira af ufsa en karfa í þessum hluta veiðiferðarinnar.

,,Það er mjög erfitt að segja til um það hvort ufsi eða karfi er undir þegar kastað er en okkur lánaðist að vera með meira af ufsa en karfa. Haustin þóttu almennt vera lélegur karfaveiðitími hér áður fyrr en nú verður maður að beita sig hörðu til að forðast að karfi sé  meginhluti aflans. Það á ekki bara við um þessi hefðbundnu karfaveiðisvæði hér syðra. Ástandið á Halanum er litlu skárra,” segir Friðleifur Einarsson.

Áhöfnin á Helgu Maríu fer nú í stutt frí á meðan aðalvél skipsins verður tekin upp. Leifur segist vonast til að það taki ekki nema tíu daga. Vélarupptekt á hinum ísfisktogurum Brims, Viðey RE og Akurey AK, er búin á þessu ári og á næstunni fer frystitogarinn Vigri RE einnig í vélarupptekt.

 

Deila: