Austurlenskt rækjugóðmeti
Jæja, er ekki kominn tími til að breyta til. Fáum okkur austurlenskar hlýsjávarrækjur í austurlensku mauki, grjón og naan brauð. Flottur réttur til að njóta síðdegis á sólríkum haustdegi, svokölluðu gluggaveðri. Og pæla í næstu sólarlandaferð. Við mælum með Bali, enda rétturinn upprunninn þaðan.
Innihald:
500g hráar risarækjur, skelflettar og garnhreinsaðar
1 stór laukur, gróft skorinn
1 þumlungur af engifer, flysjaður og smátt saxaður
2 stórir hvítlauksgeirar
1 msk. matarolía
2-3 msk. tikka karrí mauk
400g dós saxaðir tómatar
2 msk. tómatpúrra
½ msk. púðursykur
3 karímommustilkar
200g brún basmati hrísgrjón
3 msk. möndlukurl
1 msk. rjómi
½ knippi af freskum kóríander, gróft skorinn
heitt naan brauð
Aðferð:
Setjið lauk, engifer og hvítlauk í matvinnsluvél og maukið. Hellið matarolíunni í góðan pott á miðlungshita. Bætið laukmaukinu út í og látið malla þar til það verður gullið. Hrærið karrímaukinu út í og síðan tómötunum og tómatpúrrunni út í, síðan púðursykri og kardímommum og látið krauma í 10 mínútur.
Veiðið kardímommustilkana upp úr sósunni og hendið þeim og jafnið sósuna til með töfrasprota. Bætið þá möndlukurlinu og rækjunni út í og látið krauma í 5 mínútur. Hrærið þá rjómanum og kóríander út í.
Berið fram með grjónum og naan brauði.