Svandís svarar fyrirspurnum smábátaeigenda

Deila:

Á 38. aðalfundi LS flutti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarp.  Vegna skorts á viðverutíma ráðherra gafst ekki tími til að svara fyrirspurnum frá fundarmönnum.  Ráðherra óskaði eftir að fá spurningarnar sendar.  Svör hafa nú borist frá ráðherra og eru þau eftirfarandi og birt á heimasíðu LS:

  1.     Frá Ólafi Hallgrímssyni  – Félag smábátaeigenda á Austurlandi 

Þakka fyrir að þú hafir skrifað undir ótímabundna reglugerð um lokun hluta „skápsins” útaf Borgarfirði eystra, vinnu sem fyrrverandi ráðherra Kristján Þór hafði komið af stað. Umrædd lokun, bann við togveiðum hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á útgerð frá Borgarfirði eystra. Ég hvet þig til að banna alfarið veiðar með botntroll innan 12 sml. Það má alls ekki bíða með þessar aðgerðir og vonandi gerir þú þér ljóst að tal útgerða um ívilnun fyrir orkuskipti er eingöngu í orði ætlað til að ná fram annars vegar stækkun krókabáta og hins vegar til að geta dregið botntroll upp í landsteina. Hafi útgerðir raunverulegan áhuga á grænni orku þurfa þær ekki slíkar ívilnanir.

Svar: Það er ávallt í gangi vinna um hvort eða hvar þörf er á að vernda tiltekin hafsvæði. Nú um stundir er í gangi vinna í ráðuneytinu um verndun viðkvæmra vistkerfa á hafsbotni, sem byggir á rannsóknum og skýrslu Hafrannsóknastofnunar, og eru þau svæði öll utan 12 sml. Í framhaldi verður í samstarfi við Hafrannsóknastofnun farið í sambærilega vinnu um verndun viðkvæmra vistkerfa á hafsbotni á grunnslóðinni þ.e. innan 12 sml. Slík stýritæki geta verið mun nákvæmari heldur en bann byggt á tilteknum fjarlægðarmörkum frá landi sem endurspeglar mögulega  ekki það sem á botninum er.

  1.     Frá Eggert Unnsteinssyni  –  Árborg

Óska eftir rökstuddu svari við því hvers vegna ráðherra ætlar að fara 100 prósent eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, er ekki viðurkennt að aðrir vísindamenn hafi neitt vit á sjávarútvegsmálum? Hefur farið fram innri skoðun á starfsemi stofnunarinnar hversu margir starfsmenn hafa tengsl við stórútgerðina hversu margir hafa fengið styrk til síns náms frá stórútgerðinni?

Svar: Ég mun sem ráðherra sjávarútvegsmála hvergi hvika frá því að fylgja vísindalegri ráðgjöf um nýtingu fiskistofna og að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti enda er það forsenda þess að aflaheimildir geti aukist í framtíðinni. Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar er besta ráðgjöfin sem við höfum til að byggja á auk þess sem  það er bundið í lög, að það sé verkefni þeirrar stofnunar, að veita ráðherra ráðgjöf um heildarafla.  Þannig segir í 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, að: Ráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á.

  1.        Hver er afstaða þín til kvótasetningar á grásleppu? (nafn fyrirspyrjanda óþekkt)

Svar: Fyrir liggur að hlutdeildarsetning á grásleppu hefur verið til umræðu innan greinarinnar síðustu ár. Bent hefur verið á ýmsa þætti, m.a. hagkvæmnisrök frá sjómönnum sem stunda grásleppuveiðar. Þá hafa þessi mál komið til kasta Alþingis og meirihluti atvinnuveganefndar beindi því til ráðuneytisins í vor, að mikilvægt væri að stefna á markvissari veiðistýringu á grásleppu. Fram hafa komið sjónarmið um að með því að stjórna veiðum á grásleppu með aflamarki væri sjálfbær nýting stofnsins betur tryggð og auðveldara væri að stjórna aflamagni úr sjó. Fyrirsjáanleiki og þar með hagkvæmni veiðanna gæti aukist. Þá mundi breytt veiðistjórnun auka sveigjanleika fyrir þá aðila sem stunda veiðarnar og skapa frekara svigrúm fyrir stjórnvöld að setja reglur til að koma í veg fyrir óæskilegan meðafla við grásleppuveiðar og þannig yrði stuðlað að bættri umgengni um auðlindina. En óæskilegur meðafli hefur verið áskorun til margra ára fyrir greinina og stjórnvöld. Á hinn bóginn hafa komið fram sjónarmið um að ef farin væri sú leið að stjórna veiðum á grásleppu með aflamarki þurfi að varast samþjöppun veiðiheimilda, að takmarka þurfi sölu á heimildum milli svæða og að hugsa þurfi frá upphafi hvernig hvetja megi til nýliðunar. Það liggur því fyrir að útfærsla hlutdeildarsetningar skiptir verulega miklu máli ef til hennar kæmi. Þá er ljóst að þingið tekur lokaákvörðun um hlutdeildarsetningar þar sem að lagabreytingar þyrfti til.

  1.        Frá Bæring Frey Gunnarssyni – Elding

Þau þrjátíu ár sem ég er búinn að vera á handfærum óraði mér aldrei að á strandveiðum yrðu jafn mikil boð og bönn eins og reyndin er. Þú Svandís ert sjávarútvegsráðherra og kemur úr flokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem telur sig vera umhverfisvænan flokk. Spurning mín er hvort þú viljir gera strandveiðar manneskjulegri?

Svar: Það er ríkur vilji minn að efla atvinnu og byggð í landinu eins og kveðið er á um í markmiðum laga um stjórn fiskveiða. Strandveiðar skipta þar miklu máli og því er mikilvægt að standa áfram vörð um þær. Rétt er að vekja athygli á að reglur um strandveiðar eru nánast allar bundnar í lög (6. gr. a. í 116/2006). Þar af leiðandi þarf aðkomu Alþingis til að breyta regluverki um strandveiðar.

  1.   Frá Gunnþóri Sveinbjörnssyni – Klettur

Veit ráðherra hversu margir aðilar í hinum dreifðu byggðum hafa selt frá sér veiðiheimildir, haldið bátnum sínum eftir og fengið síðan brothættan byggðakvóta án nokkurra kvaða um hvar honum er landað eða hann unninn? Það er selja kvóta fyrir mjög háar fjárhæðir og lifa svo mög góðu lífi á ókeypis aflaheimildum úr okkar sameiginlega sjóði.

 

Svar: Viðskipti með aflaheimildir eru framkvæmdar af Fiskistofu og þarf staðfestingu Fiskistofu til að viðskiptin öðlist gildi. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um viðskipti einstakra útgerða eða byggða. Hvað varðar þann byggðakvóta sem ætlaður er til „brothættra byggða“ þá er í lögum (10. gr. a. í 116/2006) kveðið á um ábyrgð og skyldur Byggðastofnunar varðandi þessar aflaheimildir. M.a. um gerð samnings, samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags, skilyrði samningsins og tímalengd. Rétt er að nefna það í þessu samhengi að í þeirri stefnumótun sem nú á sér stað undir formerkjunum „Auðlindin okkar“ er verið að skoða byggða- og atvinnupotta með það fyrir augum að meta árangur þeirra verkefna.

 

 

 

 

Deila: