Góður afli í jólatúrnum

Deila:

Togskip FISK-Seafood voru á sjó milli jóla og nýárs og landa afla í dag og á morgun, að sögn Gylfa Guðjónssonar, útgerðarstjóra. Um er að ræða ferkfisktogarana Drangey SK og Málmey SK, sem landa afla sínum á Sauðárkróki og Farsæl SH sem landar í Grundarfirði. Þó togarar FISK-Seafood hafi einnig róið milli jóla og nýárs í fyrra segir Gylfi það fyrst og fremst ráðast af aðstæðum og hvernig áramótin beri upp á vikudaga hvort þau fari á sjó milli jóla og nýárs. Á því sé engin föst regla

„Þetta er allt að fara á fulla ferð hjá okkur á nýju ári,“ segir Gylfi og segist aðspurður mjög sáttur við útgerð og aflabrögð hjá fyrirtækinu í fyrra.

Málmey SK var m.a. á Halamiðum í jólatúrnum og var aflinn 130 tonn, að mestu þorskur og ufsi. Drangey SK var einnig á Halanum og Þverálshorni og var aflinn 118 tonn af þorski, ýsu og ufsa. Farsæll SH landar 44 tonnum í dag af þorski og ýsu sem fékkst á Flákakanti og Bjargbleyðu.

 

Deila: